Styrking svæðiskerfisins á vestanverðu Suðurlandi


11.04.2014

Framkvæmd

Selfosslína 3, ný jarðstrengstenging milli Selfoss og Þorlákshafnar, er nú í undirbúningi hjá Landsneti til að auka afhendingaröryggi raforku í Hveragerði, Þorlákshöfn og á Selfossi. Framkvæmdin er ekki háð mati á umhverfisáhrifum en breyta þarf aðalskipulagi sveitarfélaganna Árborgar og Ölfuss.

Eins og staðan er í dag er rekstraráreiðanleiki vestari hluta svæðiskerfisins á Suðurlandi frekar takmarkaður. Mikill ávinningur verður því af hringtengingu með umræddum streng, milli Selfoss, Þorlákshafnar og Hveragerðis (um Sogsvirkjanir), því hún mun bæði auka afköst og afhendingaröryggi raforku á svæðinu.

Jarðstrengurinn verður 66 kílóvolt (kV) og mun liggja frá tengivirki við Selfoss að tengivirki við Þorlákshöfn. Hann verður um 28 km langur og er fyrirhugað að leggja hann að mestu meðfram vegum sem fyrir eru á svæðinu. Nú er unnið að hönnun strengsins og undirbúningi nauðsynlegra breytinga á búnaði tengivirkja í Þorlákshöfn og á Selfossi. Áætlað er að jarðvinna og strenglagningin verði boðin út fyrri hluta árs 2015 og að lagningu hans ljúki fyrir árslok. Samkvæmt úrskurði Skipulagsstofnunar frá árinu 2013 er umrædd framkvæmd ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Strengleiðin liggur um sveitarfélögin Árborg og Ölfus og er unnið að skipulagsmálum í samvinnu við þau. Hafa bæði sveitarfélög auglýst breytingar á aðalskipulagi vegna strenglagningarinnar og er athugasemdafrestur hjá Sveitarfélaginu Ölfus til 6. maí en 12. maí hjá Sveitarfélaginu Árborg.

 
Kortið sýnir fyrirhugaða línuleið Selfosslínu 3.

Aftur í allar fréttir