Eldsumbrotin í norðanverðum Vatnajökli og gosið í Holuhrauni voru í brennidepli á vel sóttum vorfundi Neyðarsamstarfs raforkukerfisins (NSR) sem fram fór í höfuðstöðvum Landsnets í gær.
Þar var farið yfir stöðuna frá því að ljóst var síðsumars í fyrra að eldsumbrota væri að vænta, dregnir saman lærdómar og reynt að meta hvers væri að vænta í framtíðinni - og hvernig menn væru í stakk búnir til að mæta þeim áskorunum.Að neyðarsamstarfi raforkukerfisins koma Landsnet, Landsvirkjun, RARIK, Orkuveita Reykjavíkur, HS Orka og Veitur, Norðurorka, Orkubú Vestfjarða, RioTintoAlcan, Alcoa Fjarðaál, Norðurál, Elkem, Samorka, Orkustofnun, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Mjög gott samstarf hefur verið milli þessara aðila á vettvangi NSR þar sem meginárhersla er lögð á samstarf vegna viðbragða við vá.
Hvað höfum við lært og hvar stöndum við í dag
Jarðfræðingarnir Haraldur Sigurðsson og Haukur Jóhannesson voru fyrstir á mælendaskrá á vorfundi NSR 2015. Haraldur fór yfir atburðarás jarðhræringanna og eldgossins og spá sína um goslok sem rættist í öllum aðalatriðum. Hann bar saman atburðarás Kröfluelda og Bárðarbungu, sem svipar til fyrsta hluta Kröfluelda, og lagði mikla áherslu á að mikilvægt þess að fylgjast áfram með hreyfingum í Bárðarbungu. Haukur benti á að jarðsagan sýndi að engin merki væru um stórflóð í suðurátt frá Bárðarbungu en fjölmörg merki um slíka atburði væru hins vegar norðan jökulsins. Hann taldi því ekki stafa mikla hættu af flóðum á Suðvesturlandi en benti á að menn ættu að hafa í huga að stórt hraun og öskugos á Veiðivatnasvæðinu gæti valdið miklu tjóni.
Níels Óskarsson jarðfræðingur benti á að tærandi gosefni hefðu mikil áhrif á viðkvæman stjórn- og fjarskiptabúnað. Það yrði vaxandi vandamál með áframhaldandi tækniþróun og þyrfti m.a. að hafa í huga að brennisteinsvetni smygi í gegn um plastefni. Nauðsynlegt væri að huga að vörnum, t.d. í formi yfirþrýstings í tækjaskápum úr málmi eða lofthreinsibúnaði fyrir tækjaskápa. Einnig þyrfti að skipuleggja staðsetningu mannvirkja m.t.t. líklegra náttúruhamfara og hraunrennslisrása. Taldi Níels áhugavert að safna upplýsingum og bera saman ástand mannvirkja á ólíkum svæðum þar sem mengun væri mismunandi.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur fjallaði um veðurfar og áhrif vorleysinga eftir gos – og var erindið á myndbandi þar sem hann átti ekki heimangengt á fundinn. Einar sagði frá mismunandi dreifingu mengunar eldgosa eftir árstíðum. Að vetri sé meiri lagskipting en að sumri blandist loftið milli laga í lofthjúpnum meira og myndist hringstreymi á ákveðnu svæði, m.a. vegna sólfarsvinda. Því geti myndast svæði með mjög háum styrk á sumrin og því hafi það verið lán í óláni að gosið varð að vetri til en ekki að sumri til.
Engar rannsóknir benda til þess að gosefnamengun hefði varanleg heilsufarsáhrif sagði Þórólfur Guðnason, yfirlæknir hjá sóttvarnarlækni hjá Landlæknisembættinu. Hann sagði að brennisteinsdíoxíð (SO₂) safnaðist ekki fyrir í líkamanum og ylli ekki krabbameini. Áhrifin væru skammtíma, kæmu strax fram og væru mjög mismunandi milli einstaklinga. Helsta ráðleggingin væri að anda með nefinu og forðast áreynslu. Bakteríur í nefgöngum bindi SO₂ og forði því að það berist í lungun og valdi öndunarerfiðleikum. Ítarleg heilsufarsrannsókn vegna áhrifa gossins er fyrirhuguð sagði Þórólfur en aska virtist ekki hafa nein varanleg líkamleg áhrif en hefði sálræn áhrif á íbúa.
Hvað höfum við lært og hvernig nýtast verkefnin i framtíðinni
Víðir Reynisson hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sagði menn þar ekki hafa verið viðbúna þessum atburði en gerð viðbragðsáætlunar hefði verið komin á dagskrá. Því hefðu ef til vill verið teknar ákvarðanir um strangari aðgerðir vegna þess að nákvæm vitneskja lá ekki fyrir. Áberandi hafi hins vegar verið að allir lögðust á eitt og sýndu góða samstarfshæfni í viðbrögðum. Mikilvægt væri að vera meðvitaður um „menningarmun“ viðbragðsaðila, eins og hann orðaði það, og taka tillit til hans. Mikilvægt væri einnig að vera sér meðvitaður um það sem maður veit ekki að maður veit ekki, með því að gera sér grein fyrir og nýta það sem maður veit eða það sem aðrir vita, til viðbragða. Mikilvægt væri að vera alltaf viðbúinn því óvænta.
Aðgerðir og viðbúnaður einstakra aðila
Einar Mathiesen frá Landsvirkjun, Örlygur Jónasson frá Rarik, Reynir Guðjónsson frá Orkuveitu Reykjavíkur, Bjarni Sigurðsson frá Póst- og fjarskiptastofnun, Guðmundur Valur Guðmundsson frá Vegagerðinni, Theodór Freyr Hervarsson frá Veðurstofunni og Guðlaugur Sigurgeirsson frá Landsneti sögðu frá helstu viðbrögðum sinna fyrirtækja og stofnana. Kom m.a. fram að áhrif atburðarrásarinnar, bæði bein eða óbein, voru mismunandi eftir eðli starfseminnar. Allir áttu það þó sammerkt að grípa til fyrirbyggjandi og áhættuminnkandi aðgerða og uppfæra eða útbúa viðbragðsáætlanir. Kallað var eftir skýrum verklagsreglum og bent á mikilvægi þess að fara yfir áhrif rafmagnsleysis á virkni fjarskiptabúnaðar en upplýsingatengingar við mælibúnað og stýringar í raforkukerfinu fara um fjarskiptakerfi sem gætu verða óvirk þegar varaafl þeirra þrýtur í langvarandi rafmagnsleysi.
Frekari umfjöllun um fjarskipti og mál tengd goshættu og náttúruvá er fyrirhuguð á næsta fundi NSR í byrjun júnímánaðar.