Stefnumótun stjórnvalda vegna uppbyggingar raforkuflutningskerfisins


15.04.2015

Framkvæmd

Frumvarp til laga um breytingar á raforkulögum vegna kerfisáætlunar Landsnets og þingsályktun um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína bíða nú lokaumræðu á Alþingi. Væntir iðnaðar- og viðskiparáðherra þess að þau verði afgreidd á næstu dögum yfirstandandi vorþings.

Þetta koma fram í ávarpi Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, á vorfundi Landsnets fyrir helgi en bæði þingmálin lúta að uppbyggingu flutningskerfis raforku. Ráðherra sagði að þau hefðu verið lögð fram til að bregðast við erfiðleikum sem væru víða við uppbyggingu á flutningskerfinu og muni bara aukast eftir því sem eftirspurn eftir raforku haldi áfram að vaxa.

„Í raforkulögum skortir á um að kveðið sé skýrt á um stöðu kerfisáætlunar Landsnets um uppbyggingu flutningskerfis raforku, hvernig standa skuli að undirbúningi hennar og samspil hennar við skipulagsvald sveitarfélaga. Að sama skapi hefur skort mjög á að stefna stjórnvalda sé skýr þegar kemur að álitamálum í tengslum við lagningu raflína, meðal annars hvað varðar deilur um loftlínur eða jarðstrengi og hvernig skuli leyst úr þeim,“ sagði ráðherra. Hún áréttaði jafnframt mikilvægi þess að ná fram meiri sátt við undirbúning framkvæmda og lykilatriði í því væri að gefa hagsmunaaðilum meira svigrúm til að koma sínum sjónarmiðum og ábendingum á framfæri fyrr en verið hefur. Einnig væri mikilvægt að við undirbúning framkvæmda lægju fyrir skýr viðmið og meginreglur sem gæfu Landsneti færi á að horfa ekki eingöngu til fjárhagslega hagkvæmasta kostsins, heldur einnig til annarra mikilvægra atriða.

„Það er trú mín að með samþykkt þessara þingmála munum við stíga einu skrefi nær því að ná fram heildstæðri framtíðarsýn um það hvernig við viljum með ábyrgum og skynsamlegum hætti standa að þróun og uppbyggingu þeirra mikilvægu innviða sem felast í flutningskerfi raforku,“ sagði ráðherra.

Upptöku með ávarpi iðnaðar- og viðskiptaráðherra á vorfundi Landsnets má skoða hér ásamt upptökum af öðrum erindum á fundinum.
Aftur í allar fréttir