Um 100 manns mættu í opið hús sem að Landsnet og Vegagerðin stóðu fyrir í rafveituheimilinu í Elliðaárdal í Reykjavík í gær. Þar voru kynnt drög að tillögu að matsáætlun vegna Sprengisandslínu og Sprengisandsleiðar. Starfsmenn fyrirtækjanna og ráðgjafar þeirra ræddu við gesti og svöruðu spurningum.
Meðal þeirra sem mættu voru forsvarsmenn og félagar í nokkrum náttúruverndar- og útivistarsamtökum og var töluverður kurr í sumum yfir fyrirkomulagi kynningarinnar - en í opnu húsi er lögð áhersla á að gestir fái tækifæri til að kynna sér framkvæmdirnar og efni tillögu að matsáætlun í næði og geta rætt milliliðalaust við sérfræðinga fyrirtækjanna sem eru á staðnum, frekar en að efna til formlegra fundarhalda. Þegar nokkuð var liðið á opna húsið kvöddu forsvarsmenn náttúruverndar- og útivistarsamtakanna sér hljóðs og komu á framfæri athugasemdum við fyrirhugaðar framkvæmdir. Jafnframt lögðu þeir ýmsar spurningar fyrir fulltrúa Landsnets og Vegagerðarinnar, m.a. um forsendur framkvæmdanna, tímasetningar og áhrif, og spannst í framhaldinu upp nokkur umræða.Ekki ákveðið að ráðast í framkvæmdir
Fulltrúar Landsnets og Vegagerðarinnar lögðu í svörum sínum áherslu á að um undirbúningsferli mats á umhverfisáhrifum væri að ræða. Bent var á að styrkja þyrfti raforkuflutningskerfið og tenging yfir hálendið væri einn af valkostum. Brýnt væri að hefja ferlið snemma því það væri fyrirtækjunum mikilvægt að fá fram viðbrögð og sjónarmið hagsmunaaðila og almennings sem fyrst í ferlinu. Drög að tillögu að matsáætlun væri fyrsta skrefið í mati á umhverfisáhrifum en ekki upphaf framkvæmda. Ákvörðun um að ráðast í framkvæmdir hefði ekki verið tekin og þar af leiðandi hefði tímasetning framkvæmda ekki verið ákveðin.
Opna húsið í gær var það þriðja af fjórum sem fram fara á þessu stigi í matsferlinu. Það síðasta verður á þriðjudaginn í næstu viku, 18. nóvember , á Hótel KEA á Akureyri en frestur til að gera athugasemdir við drög að tillögu að matsáætlun vegna Sprengisandslínu og Sprengisandsleiðar rennur úr á fimmtudag í næstu viku, þann 20. nóvember 2014. Í kjölfarið verður tillaga að matsáætlun, ásamt athugasemdum sem bárust við drög tillögunnar og svör við þeim, send til Skipulagsstofnunar.
Um framkvæmd opinna húsa
Að gefnu tilefni skal áréttað að í leiðbeiningum Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum kemur fram að framkvæmdaraðilar geti kynnt tillögu að matsáætlun með kynningarfundi eða opnu húsi. Opið hús er viðtekin venja við kynningu framkvæmda, ýmist með eða án framsögu. Hefur Skipulagsstofnun hvatt til þess í viðræðum að haldið sé opið hús þar sem almenningi gefist færi á að kynna sér málin og fá tækifæri til að ræða milliliðalaust við sérfræðinga. Hefur þessi háttur verið hafður á bæði í umhverfismats- og skipulagsvinnu.