Landsnet hefur boðið hagsmunaaðilum í Vestmannaeyjum til samstarfs um betri orkunýtingu í Vestmannaeyjum og var hugmyndin kynnt í tengslum við formlega spennusetningu nýs sæstrengs til Eyja á dögunum.
Með tilkomu nýja sæstrengsins er orkuöryggi Vestmannaeyja tryggt til næstu framtíðar en ráðast þarf í frekari framkvæmdir ef auka á orkuflutninga frá fastlandinu frá því sem nú er. Þær framkvæmdir, og betri framtíðarorkunotkun í Eyjum, voru til umfjöllunar á kynningarfundi sem Landsnet efni til í Eyjum með iðnaðarráðherra, þingmönnum Suðurkjördæmis, bæjarstjórn Vestmannaeyja, og fulltrúum HS Veitna og fiskimjölsverksmiðjanna í Eyjum.Þar kom fram að næstu skref sem ráðast þarf í eru spennuhækkun nýja strengsins, bygging öflugra tengivirkis í Eyjum og styrking Rimakotslínu. Þessar framkvæmdir leiða til um 15 megavatta (MW) viðbótar við núverandi orkuflutninga til Eyja, og allt að 25 MW aukningar ef jafnframt yrði ráðist í styrkingu Hvolsvallarlínu 1.
Snjallnet er framtíðin
Samhliða auknum orkuflutningum vill Landsnet bæta nýtingu orkunnar sem flutt er til Eyja og er nú unnið að því að setja í gang verkefni með hagsmunaaðilum í Vestmannaeyjum sem fengið hefur vinnuheitið „Snjöll orkunýting í Eyjum“. Það byggðist í megindráttum á samstarfi varðandi orkukaup, hvort sem um er að ræða ótrygga eða skerðanlega orku, forgangsorku eða tilboðsorku. Horft er til þess að nýta til hins ýtrasta svokallaðar snjallnetslausnir; hugabúnaðar- og hátæknilausnir sem veita upplýsingar í rauntíma um stöðu orkuviðskiptanna, og koma að góðum notum við að stýra nýtingu orkunnar, s.s. að lækka álagstoppa og nýta hagstætt orkuverð til gagns öllum notendum í Eyjum. Markmiðið er að stuðla að söfnun og skýrri framsetningu upplýsinga þannig að búa megi til sjálfvirkar stýringar og líkön sem styðji við framtíðarákvarðandir um orkunýtingu í Eyjum. Samhliða þessu verður horft til nýrra möguleika til orkunýtingarinnar eins og t.d. notkun varmadæla, nýtingu rafgeyma og orkuvinnslu með nýjustu tækni.
Samstarfi af þessum toga hefur þegar verið komið á að hluta til á Austfjörðum, í tengslum við stóraukna raforkunotkun fiskvinnslufyrirtækja eystra, og einnig á Vestfjörðum. Þar hefur Landsnet unnið markvisst að úrbótum á stjórn og varnarbúnaði með snjallnetslausnum – og er nú unnið að enn frekari úrbótum með það að markmiði að í framtíðinni verði Vestfirðir dæmi um kerfi þar sem rauntímaupplýsingar nýtist markvisst til að tryggja öryggi raforkukerfisins.