Slæmar veðurhorfur tefja framkvæmdir við sæstreng


04.07.2013

Djúp lægð sem væntanleg er upp að sunnanverðu landinu á föstudag setti strik í þau áform Landsnets að hefja lagningu nýs sæstrengs, Vestmannaeyjastrengs 3, milli Landeyjafjöru og Vestmannaeyja í gærkvöldi. Vonir standa til að hægt verði að leggja strenginn þegar líður á næstu viku.

Allt var tilbúið í Landeyjafjöru á þriðjudagskvöldið til að hefja verkið og kapalskipið Pleijel komið á vettvang fyrir utan fjöruna, en það kom til Vestmannaeyja á hádegi á mánudag með kapalinn eftir nokkuð strembna siglingu frá Svíþjóð. Veður í Landeyjafjöru var með besta móti fyrir útlögn á kaplinum en það var hins vegar mat sérfræðinga að tíminn fram á föstudag væri of knappur til að ljúka lagningu strengsins. Áætlaður tími í verkið er um fjórir dagar og þarf það að fara fram í góðu veðri og sem lygnustum sjó.

Nú er fylgst grannt með veðurhorfum næstu daga og eru taldar líkur á að hægt verði að gera aðra tilraun þegar líður á næstu viku. Framkvæmdir eru þegar hafnar bæði í Landeyjafjöru og í Vestmannaeyjum við lagningu landhluta strengsins.

Nýi sæstrengurinn, sem framleiddur er af ABB í Svíþjóð, verður tæplega 13 km langur, jarðstrengurinn frá Landeyjafjöru að spennistöð við Rimakot verður um 3,5 km langur og jarðstrengurinn úr Gjábakkafjöru í Heimaey að tengivirki Landsnets verður um kílómetra langur. Þetta er þriðji sæstrengurinn sem lagður er til Vestmannaeyja og á hann að leysa af hólmi eldri streng, Vestmannaeyjastreng 2, sem er illa farinn og ótraustur. Til að byrja með verður nýi strengurinn tengdur á 33 kV spennu en hann getur flutt allt að 66 kV spennu og því mögulegt að auka rafmagnsflutninga töluvert til Eyja þegar úrbætur hafa verið gerið á spennivirkjum í Eyjum og við Rimakot.

Aftur í allar fréttir