Frammistöðuskýrsla fyrir árið 2015 er komin út og er aðgengileg á heimasíðu Landsnets. Í skýrslunni er að finna tölfræðilegar upplýsingar um rekstur flutningskerfis Landsnets í fyrra og samanburð við 10 ár þar á undan, jafnframt því sem hún tekur mið af kröfum um gæði raforku og afhendingaröryggi.
Þrátt fyrir óvenjumikinn fjölda truflana í raforkuflutningskerfinu árið 2015 var markmiðum um afhendingaröryggi til forgangsnotenda náð. Fjöldi truflana, þar sem kom til skerðinga var 63 árið 2015, samanborið við 50 árið áður og reiknað straumleysi hjá forgangsorkunotendum var um 27 mínútur samanborið við 23 straumleysismínútur árið 2014. Markmið Landsnets um afhendingaröryggi til forgangsnotenda miðast við 50 straumleysismínútur á ári.Vakin er sérstök athygli á nýjum köflum í skýrslunni þar sem birt eru gögn um umfang skerðinga til notenda með samninga um skerðanlegan flutning og einnig magn varaaflskeyrslu vegna fyrirvaralausra rekstrartruflana sl. þriggja ára. Gögnin sýna að skerðingar til notenda á ótryggum flutningi vegna fyrirvaralausra rekstrartruflana hafa fjórfaldast á þeim tíma og varaaflskeyrsla aukist verulega sömuleiðis.
Afhendingaröryggi og gæði flutningskerfisins – frammistöðuskýrsla 2015