Nefnd sem hefur kannað möguleika á breytingum á eignarhaldi Landsnets hf. hefur skilað greinargerð til iðnaðar- og viðskiptaráðherra og hefur hún verið gerð opinber á vef atvinnuvegaráðuneytisins.
Nefnd sem hefur kannað möguleika á breytingum á eignarhaldi Landsnets hf. hefur skilað greinargerð til iðnaðar- og viðskiptaráðherra og hefur hún verið gerð opinber á vef atvinnuvegaráðuneytisins.Í greinargerðinni eru lagðir fram tveir kostir um lagabreytingar sem fela í sér að opnað yrði fyrir þann möguleika að núverandi hluthafar í Landsneti gætu losað um eignarhluti sína. Önnur tillagan felur í sér að lögum um Landsnet verði breytt þannig að ríki og sveitarfélögum verði heimilað að kaupa hluti sem eru í eigu fjögurra orkufyrirtækja. Hin tillagan, sem gengur lengra, felur í sér að sérregla um eignarhald á Landsneti verði felld brott en þá mundi gilda ákvæði 8. gr. raforkulaga sem gerir kröfu um meirihlutaeign ríkis og sveitarfélaga, eða fyrirtækja í þeirra eigu.
Í greinargerðinni er jafnframt greint frá lagalegum álitaefnum varðandi innlenda löggjöf. Þá er umfjöllun um þriðju raforkutilskipun og þær þrjár leiðir eigendaaðskilnaðar sem hún býður upp á ásamt stuttri lýsingu á því hvernig fyrirkomulagi eignarhalds er háttað á Norðurlöndunum og í öðrum Evrópuríkjum.
Ísland hefur hlotið undanþágu frá tilteknum þáttum í þriðju raforkutilskipun ESB og er af þeim sökum í sjálfsvald sett hvort það hagar eignarhaldi Landsnets áfram með sama hætti og nú eða velur einhverja af þeim þremur leiðum eigendaaðskilnaðar sem tilskipunin kveður á um.
Greinargerð um eignarhald Landsnets