Nýtt skipurit tekur gildi hjá Landsneti 1. júní 2015 í samræmi við endurskoðun á stefnu félagsins og framtíðarsýn. Breytingunum er ætlað að efla enn frekar starfsemi Landsnets sem gegnir því mikilvæga hlutverki í raforkukerfi landsins að tryggja og viðhalda hæfni flutningskerfisins til lengri tíma og viðhalda jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar rafmagns á hverjum tíma.
„Við erum að taka upp breytt verklag í kjölfar umfangsmikillar stefnumótunarvinnu sem grundvallast á þeirri staðreynd að í nútímaþjóðfélagi þurfa allir að hafa aðgang að rafmagni. Til að mæta kröfum um afhendingaröryggi og tryggja rafvædda framtíð í takt við samfélagið þurfum við að styrkja innviði fyrirtækisins enn frekar. Þar er nýtt skipurit með auknu vægi á hlutverk og ábyrgð framkvæmdastjórnar lykilþáttur,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.Fimm meginsvið og breytingar á framkvæmdastjórn
Nýja skipuritið eykur áherslu á kjarnastarfsemi Landsnets, samlegð, skilvirkni og samvinnu milli sviða fyrirtækisins. Þá er enn ríkari áhersla lögð á góða þjónustu við viðskipavini og almenning samhliða skýrari sýn á samráð og samfélagsábyrgð fyrirtækisins. Í stað fjögurra rekstrardeilda áður og fimm stoðsviða skiptist starfsemi Landsnets nú í fimm meginsvið:
Stjórnunarsvið er nýtt svið sem veitir þjónustu þvert á fyrirtækið og sinnir viðskiptavinum Landsnets. Sviðið verður vettvangur sameiginlegrar þjónustu innan Landsnets, vinnur að verkefnum sem stuðla að aukinni samlegð, skilvirkni og samvinnu, heldur utan um samfélagsábyrgð og sinnir ytri og innri samskiptum. Framkvæmdastjóri stjórnunarsviðs er Einar S. Einarsson.
Fjármálasvið ber ábyrgð á fjármálum Landsnets, reikningshaldi, fjárstýringu, innkaupum, stjórnendaupplýsingum, tekjumörkum, áætlanagerð og gerð spálíkana. Innan fjármálasviðs verður hagdeild sem styður við eignastýringu fyrirtækisins og styrkir fjárhagslegar greiningar og áreiðanleika spálíkana. Sviðið ber ábyrgð á áhættustjórnun Landsnets. Framkvæmdastjóri fjármálasviðs er Guðlaug Sigurðardóttir, sem jafnframt er staðgengill forstjóra.
Þróunar- og tæknisvið vinnur áætlanir um uppbyggingu og þróun flutningskerfis raforku fyrir allar framkvæmdir á vegum Landsnets. Sviðið stýrir rannsóknum, umhverfismati og undirbúningsverkum sem nauðsynleg eru til að taka ákvörðun um framkvæmdir. Innan sviðsins verður tæknisetur sem undirbýr framkvæmdir og veitir tækniþjónustu þvert á svið og verður greiningarþáttur sviðsins efldur enn frekar á næstunni. Framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs er Sverrir Jan Norðfjörð.
Framkvæmda- og rekstrarsvið heldur utan um og stýrir öllum framkvæmdum í flutningskerfi Landsnets, hvort sem þær eru unnar af starfsmönnum fyrirtækisins eða verktökum. Sviðið hefur umsjón með viðhaldi, eftirliti og viðgerðum á flutningsvirkjum Landsnets þar sem mat á ástandi flutningskerfisins er meðal lykilverkefna. Sviðinu er ætlað að auka samfellu og skilvirkni í starfsemi Landsnets með sameiningu reksturs flutningskerfisins og allra framkvæmda undir einn hatt. Framkvæmdastjóri framkvæmda- og rekstrarsviðs er Nils Gústavsson.
Kerfisstjórnunarsvið ber ábyrgð á rekstri flutningskerfis Landsnets og kerfisstjórnun og sér til þess að alltaf sé jafnvægi á milli raforkunotkunar og raforkuvinnslu. Kerfisstjórnun samræmir viðbragðsáætlanir um rof rekstrareininga sem hafa áhrif á rekstur raforkukerfisins, stýrir kerfisuppbyggingu eftir að rekstrartruflanir hafa átt sér stað, skerðir álag hjá notendum ef þörf krefur og bregst við flutningstakmörkunum. Kerfisstjórnunarsvið ber ábyrgð á upplýsingakerfum Landsnets og er miðstöð snjallnetsvæðingar raforkukerfisins. Framkvæmdastjóri kerfisstjórnunarsviðs er Íris Baldursdóttir.
Samhliða þessum breytingum eru gerðar breytingar á framkvæmdastjórn Landsnets. Hana skipa nú forstjóri fyrirtækisins og framkvæmdastjórar fyrrnefndra sviða.
Viðskiptamannaráð og samtalsvettvangur
Við gildistöku hins nýja skipurits Landsnets er jafnframt komið á laggirnar sérstöku viðskiptamannaráði sem verður formlegur ráðgefandi vettvangur samráðs og umræðu um þróun raforkuflutningskerfisins og framtíðarþarfir viðskiptavina félagsins. Einnig verður komið á formlegum vettvangi samtals Landsnets við hagsmunaaðila og hann nýttur í öllum stærri verkefnum.