Skipt um lóð og upphengjur á Geiradalslínu


11.08.2016

Framkvæmd

Í nótt var unnið við reglubundið viðhald á Geiradalslínu og gekk vinna mjög vel og var línan spennusett aftur undir morgun. M.a. var skipt um lóð og upphengjur og á línunni sem þverar Gilsfjörðinn var tekinn niður tuttugu ára gamall ísingarvari. Í genginu sem tók niður ísingarvarann í nótt var Davíð Guðmundsson sem svo skemmtilega vildi til að var líka í genginu sem setti hann upp á sínum tíma.

Reglubundið eftirlit

Með reglubundnu eftirliti er ástand og viðhaldsþörf flutningsmannvirkja metið svo grípa megi til aðgerða áður en til bilana kemur. Tíðni eftirlits og ástandsskoðana fer eftir aldri og gerð búnaðar og getur verið allt frá mánaðarlegum skoðunum upp í 12-16 ára skoðanir.   

Sjónskoðun er mikilvægur þáttur í reglubundnu eftirliti og er t.d. farið með háspennulínum á þriggja ára fresti til að kanna einangrara, slit á upphengibúnaði  og jarðtengingar mastra, svo fátt eitt sé nefnt. Reynt er að haga skoðuninni eftir aðstæðum til að lágmarka umhverfisrask.

Í næstu viku hefst viðhaldsvinna við Mjólkárlínu. 

Myndin er tekin um hálf þrjú í nótt við línuna þar sem hún þverar Gilsfjörðinn.

Aftur í allar fréttir