Útgáfa upprunaábyrgða raforku, svokallaðra grænna skírteina, fór langt fram úr áætlun hjá Landsneti í fyrra og var ríflega 13 milljón skírteini á móti tæplega 5,4 milljónum skírteina árið 2012.
Landsnet byrjaði að gefa út upprunaábyrgðir raforku í apríl 2012 en með slíkri ábyrgð er staðfest að orkan sé framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum, þ.e. vatnsorku eða jarðvarma. Víða í Evrópu er markaður fyrir upprunaábyrgðir raforku og með útgáfu upprunaábyrgðanna styður Landsnet við markaðsumhverfi raforkusala svo um munar.Fyrir hverja megavattstund (MWh) af raforku, sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjafa, er hægt að selja upprunaábyrgð óháð sölu sjálfrar raforkunnar. Íslenskir raforkuframleiðendur hafa tekið vel við sér og selt umtalsvert magn af grænum skírteinum á Evrópumarkaði. Nam salan ríflega 13 milljónum skírteina árið 2013 en hún var tæplega 5,4 milljónir árið 2012. Í ljósi mikillar aukningar í sölu grænu skírteinanna var gjaldskrá vegna útgáfu þeirra lækkuð í október sl., úr 7 krónum fyrir hvert útgefið skírteini í 4,30 krónur.
Til að kynna grænu skírteinin og það regluverk sem gildir um þau hér hefur Landsnet átt samstarf við aðra evrópska útgefendur. Starfsfólk Landsnets tekur virkan þátt í starfi Evrópusamtaka útgefenda upprunaábyrgða (AIB) og hefur sinnt lykilhlutverki við bæði innleiðingu og stefnumótun á sviði tæknimála hjá samtökunum.
Hægt er að sækja og kynna sér ársskýrslu AIB 2013 hér fyrir neðan.