Rafvætt samfélag – er það spennandi kostur?


06.01.2017

Framkvæmd

Spara má allt að 1,5 milljón tonn af útblæstri gróðurhúsaloftegunda á Íslandi árið 2030 ef ráðist yrði í orkuskipti í samgöngum og iðnaði. Til að ná þessu þarf að nýta 660 til 880 MW af raforku sem kæmi í stað hefðbundins jarðefnaeldsneytis. Þessar niðurstöður og fleiri má finna í nýútkominni skýrslu sem unnin var af VSÓ ráðgjöf og Landsneti.

Í tengslum við skilgreiningu á nýjum sviðsmyndum um framtíð raforkumarkaðar á Íslandi  lét Landsnet gera samantekt á því hvaða möguleikar eru fyrir hendi varðandi orkuskipti á Íslandi. Tilgangur samantektarinnar var að kortleggja þá auknu kröfu sem slík orkuskipti munu leggja á raforkuinnviði landsins, ef af þeim verður. Samantektin byggir á fyrirliggjandi gögnum um möguleg orkuskipti og nær yfir samgöngur, landflutninga, landtengingar skipa, aukna rafvæðingu í  fiskimjölsverksmiðjum og smærri iðnaði, ásamt því sem áhrif aukinnar notkunar raforku í ræktun grænmetis voru skoðuð.

Niðurstöður samantektarinnar eru notaðar sem innlegg í skilgreiningu sviðsmynda vegna vinnslu kerfisætlunar Landsnets fyrir tímabilið 2016-2025. Niðurstöðurnar hafa nú verið gefnar út í sér   skýrslu sem finna má  hér á heimasíðu Landsnets. Í henni er lýst hvaða möguleikar, til samdráttar í losun gróðurhúsaloftegunda, skapast við að skipta út brennslu jarðefnaeldsneytis fyrir innlenda endurnýjanlega orkugjafa og hvað það þýðir í aukinni aflþörf fyrir raforkukerfi landsins.

Við hvetjum alla sem áhuga hafa á loftslagsmálum og aðgerðum til að sporna við hnattrænni hlýnun að kynna sér efni skýrslunnar.

Hér er hægt að nálgast skýrsluna.

Aftur í allar fréttir