Rafvædd framtíð í takt við samfélagið


09.04.2015

Framkvæmd

Það er vilji Landsnets að ná fram sem víðtækastri samfélagssátt um framtíðarfyrirkomulag raforkuflutninga og uppbyggingu meginflutningskerfisins þannig að allir, almenningur jafnt sem atvinnulíf, hafi öruggan aðgang að tryggu rafmagni sem er forsenda lífsgæða í nútímasamfélagi.

Til að stuðla að þessu er Landsnet að taka upp breytt verklag með skýrari sýn á samfélagsábyrgð fyrirtækisins sem felst m.a. í enn meira samráði á fyrstu stigum fyrirhugaðra framkvæmda og stofnun þverfaglegra samráðshópa. Samtímis verður öll greiningarvinna efld enn frekar með það að markmiði að finna bestu framkvæmanlegu lausnirnar á hverjum tíma, lausnir sem tryggja rafvædda framtíð í takt við samfélagið.

Þetta er meðal þess sem fram kom á vorfundi Landsnets sem fram fór í dag samhliða aðalfundi félagsins. Hátt í 300 manns voru á fundinum þar sem fjallað var um stöðu flutningskerfis raforku á Íslandi og nýjar áherslur í rekstri félagsins, sem hafa m.a. að markmiði að tryggja landsmönnum aðgang að öruggu rafmagni til framtíðar í sátt við samfélag og umhverfi. Bein útsending var einnig frá vorfundi Landsnets og verður upptaka með erindum ræðumanna og umræðum aðgengileg á heimasíðu Landsnets.


Raforka er dýrmæt auðlind
Raforka er ein af dýrmætustu auðlindum þjóðarinnar og mikilvægt að ganga vel um hana, landsmönnum öllum til hagsbóta. Þeir miklu annmarkar sem orðnir eru á meginflutningskerfinu í dag, með tilheyrandi flutningstakmörkunum milli landshluta samhliða auknu álagi og rekstrartruflunum, draga hins vegar mjög úr sjálfbærni raforkukerfisins. Þar má m.a. nefna að of veikt flutningskerfi takmarkar framleiðslu virkjana, hlutfallslega mikil orka tapast í kerfinu, skerða þarf notkun raforku vegna flutningstakmarkana og jafnvel nota olíu til raforkuframleiðslu og skemmdir verða á raftækjum notenda vegna lélegra spennugæða. Er áætlað að fjárhagslegt tap þjóðarinnar hlaupi á 3-10 milljörðum á ári vegna annmarka á flutningskerfinu – og fari vaxandi.

Allir þurfa aðgang að öruggu rafmagni
Til að Landsnet geti lagt sitt af mörkum við að stuðla að sjálfbæru raforkukerfi sem nýtir orkuauðlindirnar í samræmi við vilja þjóðarinnar, er unnið að endurskoðun á stefnu fyrirtækisins og starfsháttum svo tryggja megi nauðsynlega uppbyggingu flutningskerfisins. Sú vinna grundvallast á þeirri staðreynd að í nútímasamfélagi þurfa allir að hafa aðgang að rafmagni í því magni og þeim gæðum sem hver og einn hefur þörf fyrir. Þetta felur í sér að afhendingaröryggi raforku verður að vera í samræmi við kröfur samfélagsins og ætlar Landsnet m.a. að efla markvissar greiningar á uppbyggingarkostum í kerfinu með því að bæta samskipti og koma upp þverfaglegum samráðshópum. Þá verður leitast við að auka jafnvægi milli einstakra þátta í starfseminni og stuðla að heildstæðri stefnumótun fyrir raforkuiðnaðinn.
Hlutverk Landsnets í orkukeðjunni er ekki að drífa hana áfram heldur tryggja jafnræði, jafnt aðgengi að flutningskerfinu, tryggja afhendingaröryggi raforkunnar og stuðla að eðlilegum viðskiptum með raforku. Þetta er mikilvægur hlekkur í raforkukeðjunni sem sinna þarf af ábyrgð og festu til að tryggja rafvædda framtíð í takt við samfélagið.

Horft til framtíðar
Á Íslandi er mikil umræða um sýnileika flutningslína en erlendis er minni losun gróðurhúsalofttegunda með betri orkunýtingu í brennidepli. Sterkara flutningskerfi og auknar tengingar milli landa leiða til betri nýtingar virkjana og draga úr orkutapi í flutningskerfinu.

Eins og staða flutningskerfisins er í dag koma flutningstakmarkanir í veg fyrir staðsetningu nýrra meðalstórra fyrirtækja utan suðvesturhluta landsins, nema í Þingeyjarsýslum þar sem aukin orkunotkun er möguleg í samræmi við aukna orkuvinnsla á svæðinu. Þeir valkostir sem Landsnet horfir til vegna uppbyggingar meginflutningskerfisins eru annars vegar styrking byggðalínuhringsins og hins vegar hálendisleið þar sem loftlína alla leið, eða loftlína með allt að 50 km jarðstreng, eru valkostir. Að mati Landsnets er jarðstrengur með jafnstraumstækni alla leið yfir Sprengisand varla raunhæf lausn nema í tengslum við sæstreng til Evrópu.

Að mati flestra er sæstrengur til Bretlands arðsamt verkefni enda er arðsemi forsenda fyrir því að lagt yrði í slíka framkvæmd. Sæstrengur væri líka hagkvæm leið að mati Landsnets til að tryggja orkuöryggi á Íslandi. Orkuöryggi, sem leyst er eingöngu með uppbyggingu íslenskra orkuvera, er að jafnaði mjög kostnaðarsamt fyrir samfélagið. Sæstrengur myndi jafnframt skapa markað fyrir orku sem ekki selst innanlands og væri því arðsamur fyrir orkuframleiðendur sem myndu tengjast markaði sem borgar hærra raforkuverð. Sæstrengurinn myndi hins vegar líka auka þörfina á flutningsmannvirkjum og leiða til hærra orkuverðs á Íslandi. Hlutverk Landsnets vegna lagningar sæstrengs til Evrópu hefur ekki verið skilgreint, ólíkt því sem er t.d. í nágrannalöndunum þar sem systurfélög Landsnets eru leiðandi í slíkum verkefnum. 
Aftur í allar fréttir