Raforkuflutningskerfi Landsnets varð ekki fyrir stóráföllum í óveðrinu sem gekk yfir landið í gær og í nótt. Um níuleytið í gærkvöldi varð straumrof á Búrfellslínu 1 í skamma stund. Á Bolungarvíkurlínum 1 og 2 leysti rafmagn einnig út rétt fyrir hálf þrjú í nótt vegna veðurágangs en við það fór varaaflstöð Landsnets sjálfvirkt í gang.
Rafmagnsleysi þar varð því innan við eina mínútu en það er sá tími sem tók að ræsa varaaflstöðina.Ísing varð mun minni en búist var við, þar sem hitastig var hærra en spáð var. Enn er töluverð selta á flutningsmannvirkjunum á Vesturlandi og meðan svo er verður fylgst með stöðunni og spennan í kerfinu lækkuð. Reikna má með að saltið skolist af í næstu rigningu.
Lækka þurfti spennu á nokkrum stöðum til að draga úr líkum á yfirslætti og orkuflutningur var jafnaður á milli landshluta. Aðgerðir heppnuðust vel en töluverður viðbúnaður var viðhafður, bæði í stjórnstöð og við tengivirki á vestan- og norðanverðu landinu.