Raforkuafhending Landsnets að komst í eðlilegra horf


09.12.2015

Framkvæmd

Viðgerð er lokið á byggðalínuhringnum sem fór í sundur á tveimur stöðum í fyrrakvöld. Einnig er viðgerð að ljúka á Kópaskerslínu og verður hún komin aftur í rekstur í kvöld. Þá er viðgerð hafin á Breiðadalslínu 1 sem er í sundur í Dýrafirði þar sem 17 möstur brotnuðu vegna ísingar og vindálags í fyrrakvöld. Norðanverðir Vestfirðir fá rafmagn frá varaaflsstöðinni í Bolungarvík meðan á viðgerð stendur og því er ekkert rafmagnsleysi lengur hjá viðskiptavinum Landsnets og raforkuafhending að færast í eðlilegra horf á ný eftir óveðrið í fyrrakvöld.

„Það eru yfir 40 manns með tæki og tól sem hafa verið á ferðinni á vegum Landsnets, bæði fyrir austan, norðan og á Vestfjörðum, og hafa viðgerðir almennt gengið vel eftir að mannskapurinn komst á vettvang,“ segir Smári Jónasson, forstöðumaður netþjónustu hjá Landsneti.

Viðgerð á Rangárvallalínu 1, sem sló út þegar tvö möstur brotnuðu rétt við bæinn Sólheima í Blönduhlíð í Skagafirði, lauk í gærkvöldi og var hún komin í rekstur rétt fyrir klukkan eitt eftir miðnætti. Þá lauk viðgerð á Teigarhornslínu 1, milli Hryggstekks í Skriðdal og Teigarhorns í Berufirði, síðdegis í dag og er hún nú einnig komin í rekstur. Þar með er byggðalínuhringurinn samtengdur á ný, sem dregur úr rekstraráhættu flutningskerfisins, en rjúfa verður hann aftur um tíma á morgun, vegna viðgerðar á Prestbakkalínu 1 sem laskaðist í óveðrinu en hefur samt verið nothæf. Reiknað er með að viðgerðin á Prestbakkalínu klárist á morgun og hún ekki að hafa í för með sér straumleysi fyrir raforkunotendur á Suður- og Suðausturlandi.

Viðgerð á Kópaskerslínu 1, frá Laxárstöð út á Kópasker á að ljúka í kvöld og þá á rafmagn að komast á hjá notendum þar sem hafa verið straumlausir og hægt að hætta keyrslu varaafls á Kópaskeri.


Á Vestfjörðum er viðgerð hafin á Breiðadalslínu 1. Staðfest er að 17 möstur eru brotin í línunni við Gemlufall í Dýrafirði og er nú unnið að því að kanna ástand allrar línuleiðarinnar, frá Mjólkárvirkjun að Breiðadal í Önundarfirði. Ekki er vitað hversu langan tíma viðgerðin tekur en ljóst að henni lýkur vart fyrr en fyrripart næstu viku. Á meðan Breiðadalslína 1 er biluð fá norðanverðir Vestfirðir rafmang frá varaaflsstöðinni í Bolungarvík og því verða skerðingar hjá kaupendum ótryggrar orku vestra meðan á því stendur.

Mynd: Skemmdir á Breiðadalslínu 1 

Aftur í allar fréttir