Rafmagn vegna flutningstapa hækkar verulega annað árið í röð - dræm þátttaka í útboði


30.10.2014

Framkvæmd

Gjaldskrárhækkun á flutningstöpum verður hjá Landsneti á næsta ári í kjölfar 23% hækkunar milli ára á rafmagni sem fyrirtækið kaupir til að mæta flutningstapi í raforkukerfinu. Aðeins tvö orkufyrirtæki tóku þátt í útboði Landsnets vegna flutningstapa 2015 og ekki fengust tilboð í allt það orkumagn sem boðið var út.

Flutningstöp er sú raforka sem tapast í flutningskerfinu vegna viðnáms í flutningslínum og spennum og hefur Landsnet tryggt sér kaup á rafmagni til að mæta þessu tapi til eins árs í senn. Óskað var eftir tilboðum í 374.000 MWh (374 GWh) vegna flutningstapa árið 2015. Það er álíka mikið magn og boðið var út á yfirstandandi ári en tilboð bárust einungis frá tveimur af sex orkufyrirtækjum sem boðin var þátttaka. Tilboð bárust ekki heldur í allt magnið en á grundvelli útboðsins getur Landsent gert samninga um kaup á 86% af því magni sem boðið var út. Liggja nú fyrir tillögur um kaup á einstökum einingum á grundvelli lægst verðs. Leitað verður samninga um það magn sem upp á vantar.

Niðurstaða útboðsins leiðir til hækkunar á bæði meðalverði grunntapa og meðalverði viðbótartapa. Hækkunin er mest vegna viðbótartapa, eða 69% samanborið við niðurstöðu útboðs síðasta árs (fara úr 3.550 kr/MWh í 6.012 kr/MWh), en grunntöp hækka um 14% (fara úr 2.953 kr/MWh í 3.378 kr/MWh). Meðaltalshækkunin á milli ára á innkaupsverði raforku vegna flutningstapa er því 23% (fer úr 3.047 kr/MWh í 3.762 kr/MWh). 

Töp munu aukast - fyrirkomulag innkaupa til skoðunar
Þetta er annað árið í röð sem verð rafmagns vegna flutningstapa hækkar umtalsvert en árin þar á undan fór verðið lækkandi. Gjaldskrá vegna flutningstapa endurspeglar hverju sinni það verð sem Landsnet greiðir fyrir flutningstöp í kerfinu og er gjaldskrárhækkun því fyrirsjáanleg. Gjaldskrá vegna flutningstapa er í dag 70,46 kr/MWh og vegur að jafnaði um 4-5% af heildarflutningsgjöldum til dreifiveitna.

Lítil þátttaka raforkusala er hins vegar áhyggjuefni en helstu skýringar á dræmri þátttöku eru að aðilar telja sig ekki geta skuldbundið sig til þess að afhenda rafmagn í eins miklu magni á næsta ári eins og áður var. Því er til skoðunar hjá Landsneti hvernig standa skuli að innkaupum á flutningstöpum í framtíðinni en viðbúið er að kostnaður Landsnets vegna flutningstapa muni aukast enn frekar vegna vaxandi orkuflutnings milli landshluta. Hann fer um byggðalínuna, sem er fulllestuð, og það hefur í för með sér að að hærra hlutfall af orku tapast en í þeim hlutum flutningskerfisins þar sem álagið er minna. Það blasir því við að töp munu halda áfram að aukast á næstu árum - ef ekki næst að tryggja aukna flutningsgetu raforku milli landshluta.

 


Leiðrétting 31.10.2014:
Vegna reiknivillu vantaði hluta upplýsingar um viðbótartöp inn í ofangreinda frétt þegar hún var birt þann 30.10.2014. Fréttin hér fyrir ofan hefur verið leiðrétt. Samkvæmt því gerir Landsnet samning um kaup á 96% af því magni sem var boðið út, ekki 86%. Sömuleiðis er meðaltalshækkun milli ára á innkaupsverði raforku vegna flutningstapa 23% en ekki 38%. Fer úr 3.047 kr/MWh í 3.762 kr/MWh. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.
 

 



Aftur í allar fréttir