Prófanir lofa góðu um styttingu straumleysistíma vestra


12.11.2014

Framkvæmd

Álagsprófanir á svæðiskerfið vestra síðastliðna nótt lofa mjög góðu um að Landsnet og Orkubúið nái settu markmiði um að stytta verulega straumleysistíma á Vestfjörðum með tilkomu nýju varaaflsstöðvarinnar í Bolungarvík. Prófanirnar náðu til norðanverðra Vestfjarða en í nótt og næstu nótt verður látið reyna á samrekstur varaaflsstöðvarinnar og Mjólkárvirkjunar í eyjarekstri.

Prófanirnar í nótt sem leið gengu prýðilega en þá var tekinn straumur af Breiðadalslínu og snjallnetsstýringarnar, sem búið er að setja upp í svæðiskerfinu vestra, látnar keyra upp dísilvélarnar sex í varaaflsstöðinni og spennusetja eyjuna sem myndaðist við þetta á norðanverðum Vestfjörðum.

„Þessar fyrstu prófanir á snjallnetsstýringunum hér vestra í rauntíma gengu vonum framar,“ segir Víðir Már Atlason, verkefnisstjóri hjá Landsneti. Var þrisvar prófað að taka straum af Breiðadalslínu í nótt, tvö fyrstu skiptin voru framkvæmd „handvirkt“ en fyrir þriðju og síðustu prófunina var búið að virkja snjallnetið.

„Það á auðvitað eftir að fínstilla ýmsa hluti í snjallnetinu sem eiga að stytta enn frekar straumleysistímann en niðurstöðurnar gefa ástæðu til bjartsýni og sýna að markmið okkar, um að tími straumleysis verði innan við ein mínúta, er alveg raunhæft,“ segir Víðir Már og áréttar að spennuleysi í nótt hafi staðið yfir í um hálfa mínútu og straumleysi hjá notendum verið frá hálfri til ríflega einnar mínútu.

Straumleysi vestra í nótt
Í nótt og næstu nótt er svo fyrirhugað að prófa samrekstur varaaflsstöðvarinnar í Bolungarvík og Mjólkárvirkjunar, með Vestfirði alla í eyjarekstri. Vegna prófananna verður straumlaust á norðanverðum Vestfjörðum í nótt.

Prófunin í nótt – skref fyrir skref

Myndir frá Orkubúi Vestfjarða
Aftur í allar fréttir