Röð atvika í flutningskerfi Landsnets leiddi til þess að rafmagn fór af Austurlandi sl. laugardagsmorgun, þ.á.m. af kerskála Fjarðaáls í Reyðarfirði. Upphaf atburðarrásarinnar má rekja til bilunar í stjórnbúnaði spennis við Sigölduvirkjun.
Upphaf truflananna má rekja til þess að útleysing varð á spenni fjögur (SP4) í Sigöldu fyrir miðnætti aðfararnótt 8. febrúar. Við það opnaðist byggðalínuhringurinn og var þá flutningskerfinu skipt upp í svokallaðan eyjarekstur til að tryggja öruggari rekstur kerfisins. Jafnframt var afhending til stóriðju minnkuð sjálfvirkt um uþb. 45 MW til að verja kerfið. Um kl. 4:30 var talið að komist hefði verið fyrir bilunina í Sigöldu og að flutningskerfið væri komið í eðlilegan rekstur. Höfðu notendur í Mývatnssveit og Vestur-Skaftafellssýslu þá orðið fyrir skammvinnu rafmagnsleysi.Stundarfjórðungi fyrir kl. 5:00 varð á ný útleysing á SP4 í Sigöldu. Vegna hugsanlegra aflsveiflna í kerfinu var því í varúðarskyni skipt upp í tvær eyjar kl. 5:00. Skömmu síðar varð útleysing á vél í Fljótsdalsstöð og við það lækkaði tíðnin í norðaustureyjunni með þeim afleiðingum að útleysing varð hjá Fjarðaáli í Reyðarfirði. Einnig varð rafmagnsleysi hjá fleiri notendum á Austur- og Suðausturlandi og óstöðugleiki var um tíma á spennu.
Vegna vandamála sem upp komu við enduruppbyggingu flutningskerfisins tók uppkeyrsla skála Fjarðaáls lengri tíma en ella og var skálinn án rafmagns í yfir tvær og hálfa klukkustund.
Ástæður þessara bilana eru fyrst og fremst raktar til þess að byggðalínan er rekin á þanmörkum og áminning um mikilvægi þess að styrkja tengingu meginflutningskerfisins milli norður- og suðurhluta landsins.
Almennum notendum, sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni vegna straumleysis eða spennusveiflna, er bent á að vera í sambandi við viðkomandi dreifiveitu.