Orkustofnun hefur samþykkt kerfisáætlun Landsnets 2015-2024


26.04.2016

Framkvæmd

Kerfisáætlun Landsnets samræmist skilyrðum raforkulaga. Þetta er niðurstaða Orkustofnunar sem samkvæmt raforkulögum hefur það hlutverk að fara yfir og samþykkja kerfisáætlun Landsnets með hliðsjón af markmiðum um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, hagkvæmni, gæði raforku og stefnu stjórnvalda um lagningu strengja.

Breytingar sem Alþingi gerði á raforkulögum síðastliðið vor festu lagagrundvöll kerfisáætlunar í sessi og lögðu jafnframt Landsneti og Orkustofnun auknar skyldur á herðar við gerð hennar. Þannig skal áætlunin nú lögum samkvæmt uppfærð árlega og lögð fyrir Orkustofnun til samþykktar og er það mat stofnunarinnar, eftir að hafa farið í gegnum lögbundið samráðsferli með viðskiptavinum Landsnets og hafa leitað eftir viðeigandi gögnum frá Landsneti, að kerfisáætlun 2015-2024 samræmist skilyrðum raforkulaga.

Samþykki fyrir Blöndulínu 3 og Kröflulínu 3
Kerfisáætlunin felur annars vegar í sér framkvæmdaáætlun til þriggja ára og hins vegar langtímaáætlun til 10 ára um þróun flutningskerfisins. Áætlaður heildarkostnaður vegna framkvæmdaáætlunarinnar er á þriðja tug milljarða og meðal stórra framkvæmda þar má nefna Blöndulínu 3 og Kröflulínu 3 sem Orkustofnun samþykkir, með fyrirvara um breytingar sem kunna að verða á forsendum og áætlunum Landsnets.

Í frétt á vef Orkustofnunar kemur fram að þriggja ára framkvæmdaáætlun Landsnets sé óháð því hvaða valkostur verður verður ofan á varðandi langtímaáætlun fyrirtækisins um uppbyggingu flutningskerfisins. Lagðir voru fram níu valkostir þar sem annars vegar var um að ræða kosti sem tengjast svokallaðri hálendisleið, eða Sprengisandsleið, og hins vegar kostir sem miða að styrkingu á núverandi byggðalínu.

Tekur ekki afstöðu til valkosta um framtíðaruppbyggingu að svo stöddu
Orkustofnun fellst á að þeir valkostir sem Landsnet hefur sett fram um framtíðaruppbyggingu meginflutningskerfisins séu nú hluti af langtímaáætlanagerð Landsnets en stofnunin tekur ekki afstöðu til þess að svo stöddu hvaða valkostur verður farinn. Til að geta metið umrædda valkosti á langtímaáætlun fyrirtækisins og samþykkt þær framkvæmdir þurfi ítarlegri upplýsingar og greiningar að liggja fyrir um það hvernig þær falli að markmiðum raforkulaga. Gerir Orkustofnun ráð fyrir því að þetta skýrist í kerfisáætlun á komandi árum enda beri Landsneti að leggja fram nýja kerfisáætlun árlega til samþykktar.

Ákvörðun Orkustofnunar um samþykki kerfisáætlunar
Aftur í allar fréttir