Orkustofnun gefur grænt ljós á byggingu Suðurnesjalínu 2


06.12.2013

Framkvæmd

Orkustofnun hefur veitt leyfi fyrir byggingu og rekstri Suðurnesjalínu 2, rúmlega 32 km langrar 220 kV loftlínu sem verður fyrst um sinn rekin á 132 kV spennu, frá tengivirki við Hamranes í Hafnafirði um Voga, Reykjanesbæ og Grindavíkurbæ að tengivirki við Rauðamel, um fimm km norðan við Svartsengi.

Fram kemur í fylgiskjali með leyfisveitingu Orkustofnunar að framkvæmdin hafi sætt mati á umhverfisáhrifum, verið útfærð í nánu samráði við viðkomandi sveitarfélög og uppfylli að öðru leyti þau skilyrði laga sem krafist er. Eina skilyrðið sem sett er í leyfi Orkustofnunar er að Landsnet setji fram áætlun um vöktun á áflugshættu fugla á raflínur á þremur stöðum á línuleiðinni, og áætlun um merkingu línanna.

Tryggir afhendingaröryggi á Reykjanesi
Tæpt ár er liðið frá því að Landsnet sótti um leyfi Orkustofnunar vegna byggingar Suðurnesjalínu 2 en samhliða byggingar hennar er einnig gert ráð fyrir að breyta legu Fitjalínu 1, sem er 132 kV lína milli Rauðamels og Njarðvíkurheiðar. Styrking flutningskerfisins á Reykjanesi hefur hins vegar verið í undirbúningi í nærri ártug og er þessi niðurstaða Orkustofnunar mikilvægur áfangi í því ferli segir Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets.

„Suðurnesjalína 2 mun tryggja afendingaröryggi raforku til allra notenda á Reykjanesi en eins og málum er nú háttað er öryggi kerfisins ófullnægjandi.“

Hvorki umhverfissjónarmið né annað réttlæta jarðstrengjalausnir
Í athugasemdum við leyfisumsókn Landsnets var m.a. kallað eftir jarðstrengjalausnum á hluta línuleiðarinnar og bent á að nægjanlegt væri að leggja 132 kV línu til að mæta flutningsþörfum almennra notenda. Orkustofnun féllst ekki á þessi sjónarmið og í fylgiskjalinu er bent á að mikilvægt sé að líta til langtímasjónarmiða varðandi framtíðarþarfir raforkunotenda og –framleiðenda á svæðinu. Þess vegna sé 132 kV lína óhagkvæmur kostur.

Þá tekur Orkustofnun undir þau rök Landsnets að jarðstrengur sé óhagkvæmari framkvæmd en loftlína miðað við 220 kV línu og áréttar að „hvorki umhverfissjónarmið né annað í forsendum framkvæmdarinnar réttlæti þann kostnaðarauka sem af slíku muni hljótast,“ eins og segir orðrétt í fylgiskjalinu.

Leyfisveiting Orkustofnunar og fylgibréf með leyfinu. (pdf-skjal 2.673 KB)

Aftur í allar fréttir