Orka, samgöngur og fjarskipti eru forsendur nútíma mann- og atvinnulífs og grundvöllur byggðar í öllu landinu. sagði stjórnarformaður Landsnets á vorfundi félagsins á dögunum þegar hann minntist 10 ára afmælis félagsins og horfði fram á veg til þeirra verkefna sem bíða þess á næstu árum.
Landsnet var stofnað með hliðsjón af evrópskum reglum um raforkumarkaðinn í kjölfar EES samningsins og má segja að félagið hafi nú slitið barnsskónum. Vel hefur tekist til með innri uppbyggingu félagsins að mati Geirs A. Gunnlaugssonar stjórnarformanns.„Á 10 ára afmæli Landsnets tel ég að við getum verið mjög sátt við hvernig tekist hefur til við uppbyggingu og rekstur fyrirtækisins en aftur á móti veldur það vonbrigðum að ekki hefur tekist að stíga skref til að styrkja meginflutningskerfið,“ sagði stjórnarformaðurinn og áréttaði að næg og trygg raforka væri enn mikilvægari forsenda mannlífs og atvinnuuppbyggingar í dag en var fyrir 40 árum þegar ráðist var í byggingu byggðalínunnar til að tryggja landsmönnum jafnan og öruggan aðgang að raforku .
Þarf að endurskoða hugtakið stóriðja
„Orka, samgöngur og fjarskipti eru forsendur nútíma mann- og atvinnulífs og grundvöllur byggðar í öllu landinu. Gildir það jafnt um landbúnað, fiskvinnu, allan iðnað, smáan sem stóran, þjónusta við ferðamenn og gagnaver, svo nokkuð sé nefnt. Ef rafmagnið er ekki fyrir hendi er ekki hægt að mjólka kýrnar, ekki hægt að smíða úr tré eða járni, ekki hægt að elda mat í ferðamanninn og þá virkar fjarskiptakerfið ekki,“ sagði Geir og benti á að í umræðunni hafi menn gjarnan tengt flutningskerfi raforku við stóriðju og áréttaði að allt atvinnulíf þyrfti trygga raforku, ekki aðeins stóriðjan.
„Við skulum heldur ekki gleyma því að hið öfluga flutningskerfi hér á suðvesturhorninu, sem tryggir jafnt heimilum sem atvinnulífi örugga raforku, er byggt upp í tengslum við stóriðju,“ sagði Geir og taldi tíma til kominn að endurskoða hugtakið stóriðja.
„Kísilmálmverksmiðjurnar, sem nú er áformað að byggja á Bakka og á Reykjanesi, ber ekki að flokka sem stóriðju. Þær nota milli 50 og 100 MW hver og eru annars konar iðnfyrirtæki en álverin sem nota nokkur hundruð MW. Sama gildir um gagnaverin, um Becromal á Akureyri og fiskimjölsverksmiðjurnar á Austurlandi. Allt eru þetta fyrirtæki sem þurfa töluvert af orku en geta vart flokkast sem stóriðja. Þetta eru aðeins meðalstór fyrirtæki og mjög æskileg stærð fyrir íslenskt atvinnulíf.“
Betri tenging sparar eina meðalstóra virkjun
Samtenging Geir benti jafnframt á að með byggingu Kárahnjúkavirkjunar og nú byggingu virkjunar að Þeistareykjum verði raforkuframleiðsla á Austur- og Norðausturlandi orðin alls um 900 MW með Kröflu og Laxárvirkjun, á móti 1.500 MW framleiðslu á Suður- og Suðvesturlandi. Mikilvægt væri að tengja þessi tvö framleiðslusvæði saman, bæði til að tryggja orkuafhendingu og minni töp í flutningskerfinu og til að nýta betur það uppsetta afl sem er til staðar í kerfinu.
„Þetta er aðgerð sem sparar sem jafngildir framleiðslu einnar meðalstórrar virkjunar sem þarf þá ekki að byggja,“ sagði stjórnarformaður Landsnets.
Hægt er að horfa á upptöku af ávarpi stjórnarformanns Landsnets á vorfundinum hér ásamt erindum annarra framsögumanna.