Skref í áttina að betra afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum var stigið í dag þegar iðnaðarráðherra tók formlega í gagnið nýtt tengivirki Landsnets og Orkubús Vestfjarða á Ísafirði. Styrkingar hafa einnig farið fram á Tálknafjarðarlínu og vinna við varaaflsstöð Landsnets í Bolungarvík er langt komin og á hún að vera tilbúin til notkunar fyrir árslok.
Forgangsverkefni að efla afhendingaröryggi á VestfjörðumFramleitt er mun minna rafmagn á Vestfjörðum en þar er notað og eina tenging svæðisins við byggðalínuhringinn er um svokallaða Vesturlínu. Afhendingaröryggi raforku hefur ekki verið ásættanlegt vestra og hefur það verið forgangsmál hjá Landsneti á undanförnum misserum og árum að bæta þar úr.
Þegar hefur verið komið fyrir sérstökum fjarvörnum á öllum línum Landsnets á Vestfjörðum sem dregur úr líkum á umfangsmiklu straumleysi og auðveldar bilanaleit. Endurbætur hafa farið fram á Tálknafjarðarlínu, bæði í sumar og fyrrasumar, og bygging varaaflsstöðvar í Bolungarvík er langt komin þar sem hægt verður að framleiða allt að 11 megavött (MW) inn á svæðiskerfið með sex díselvélum. Þá lauk byggingu nýja tengivirkisins á Ísafirði síðsumars og var þörfin fyrir það orðin brýn. Gamla virkið var orðið úr sér gengið tæknilega, auk þess sem það er á snjóflóðahættusvæði í Stórurð og er þar í vegi fyrir nýjum ofanflóðavarnargarði.
Samstarfsverkefni Landsnets og Orkubús Vestfjarða
Nýja tengivirkið er staðsett á iðnaðarsvæðinu á Skeið, innan við Ísafjarðarkaupstað, við hlið kyndistöðvar Orkubús Vestfjarða. Hefur samvinna fyrirtækjanna við undirbúning verksins verið náin, enda nýja tengivirkið sameign þeirra. Eins og önnur ný tengivirki Landsnets er það yfirbyggt sem eykur bæði rekstraröryggi og dregur úr umhverfisáhrifum mannvirkisins.
Tengivirkið hýsir stjórnrými og fjóra 66 kílóvolta (kV) rofa Landsnets og tvo spenna Orkubúsins. Hönnun og gerð útboðsgagna hófst í ársbyrjun 2013, eftir nokkuð langan aðdraganda, og framkvæmdir hófust um haustið. Gengu þær vel þó svo verkið væri unnið á versta tíma ársins og var þeim að mestu lokið í febrúar 2014. Þá tók við vinna við uppsetningu á háspennubúnaði, tengingar og prófanir. Samhliða framkvæmdum við tengivirkið voru lagðir tveir 600 metra 66 kV jarðstrengir að tengivirkinu, auk þess sem flytja þurfti Ísafjarðarlínu 1, 66 kV jarðstreng, úr hlíðinni fyrir ofan byggðina niður að Skutulsfjarðarbraut. Gamla tengivirkið við Stórurð stendur ennþá en vinna við að fjarlægja úr því allan búnað er langt komin. Það verður rifið síðar í haust og munu fáir líklega sakna þess þegar það hverfur.
Heildarkostnaður við byggingu nýja tengivirkisins og jarðstrengslagnir er um hálfur milljarður króna og kostnaður við varaflsstöðina í Bolungarvík um einn og hálfur milljarður. Þessar framkvæmdir eru með þeim stærri hjá Landsneti á árinu en alls námu framkvæmdir í flutningskerfinu, til að auka enn frekar gæði og afhendingaröryggi raforku til almennings og fyrirtækja, um sjö milljörðum króna í fyrra. Á þessu ári er varið heldur lægri upphæð í fjárfestingar í meginflutningskerfinu og svæðisbundnum kerfum Landsnets í öllum landsfjórðungum, eða fimm milljörðum króna, og er helsta skýringin sú að framkvæmdir eru ekki hafnar við Suðurnesjalínu 2.