Nýtt mat á framkvæmdakostnaði við 220 kV jarðstreng og líftímakostnaðarmat á 220 kV línu og jarðstreng


13.12.2013

Framkvæmd

Nýtt líftímamat á 220 kV línu og jarðstreng annars vegar og mat á framkvæmdakostnaði við 220 kV jarðstreng hins vegar sem unnin eru fyrir Landsnet voru kynnt á fjölmennum morgunverðarfundi Verkfræðingafélags Íslands og Tæknifræðingafélags Íslands á Grand hótel í Reykjavík í morgun. Þar kom m.a. fram að núvirtur líftímakostnaður 220 kV jarðstrengs í í útjaðri íbúabyggðar er hátt í 270 milljónir króna á km á meðan líftímakostnaður 220 kV loftlínu við sömu aðstæður er ríflega 105 milljónir króna.

Um 150 manns voru á fundinum sem bar yfirskriftina Línur eða strengir? Frummælendur voru Jón Vilhjálmsson, rafmagnsverkfræðingur hjá Eflu, og Þorri Björn Gunnarsson, jarðtækniverkfræðingur hjá Mannviti, en fundarstjóri var Snæbjörn Jónsson, rafmagnsverkfræðingur hjá Verkís.

 

Mat á framkvæmdakostnaði við 220 kV jarðstreng
Mikil umræða hefur verið um jarðstrengi og línur á undanförnum misserum og gerði Þorri grein fyrir nýrri kostnaðargreiningu fyrir lagningu 220 kV jarðstrengja með allt að 300 MVA flutningsgetu sem Mannvit og Ragnar Kristjánsson, lektor við Háskólann í Reykjavík, hafa unnið fyrir Landsnet. Fram kom að til að fullnægja þessari flutningsgetu þurfi við flestar aðstæður einn skurð með þremur strengjum í láréttu plani en til að fullnægja kröfum um 500-600 MVA flutningsgetu á aðalleiðum Landsnets sé þörf á tveimur slíkum skurðum með 4-6 metra millibili.

Skoðaður var kostnaður við jarðvinnu, efniskaup og lagningu strengs og skilgreindar fimm mismunandi sviðsmyndir, þ.e. einfalt grunntilfelli, hagkvæmar aðstæður, þverun dals sem á rennur um, lagning í hrauni og lagning í útjaðri íbúabyggðar. Þá voru fundnir þeir kostnaðarliðir sem eiga við hvert tilfelli ásamt einingarverðum, miðað við verðlag og verðfyrirspurnir í september 2013, framkvæmd áhættugreining og fundið hver líklegur framkvæmdakostnaður gæti orðið fyrir hvert tilfelli.

Mat á líftímakostnaði 220 kV loftlína og jarðstrengja
Líftímakostnaður lína og strengja var síðan í brennidepli í erindi Jóns Vilhjálmssonar og vann hann samanburðinn úr frá sömu fimm mismunandi tilfellum og notuð voru í greiningu Mannvits og HR. Tölur um stofnkostnað við jarðstrengi voru einnig fengnar úr skýrslu Mannvits og HR en stofnkostnaður loftlína var metinn með líkani sem Efla hefur útbúið fyrir Landsnet. Til að samanburðurinn yrði á þjóðhagslegum grunni voru vörugjöld sem leggjast á jarðstrengi dregin frá tölum Mannvits og HR.

Fram kom hjá Jóni að samkvæmt útreikningum Eflu er líftímakostnaður nokkuð meiri fyrir jarðstrengi en loftlínur í öllum þeim fimm tilvika sem skoðuð voru og sjá má á þessum súluritum.
 

Jón benti á að stofnkostnaður vægi meira í kostnaði við jarðstrengi en aftur á móti hefðu töp og rekstrarkostnaður meiri áhrif á líftímakostnað loftlína. Jafnframt sýndi skoðun á dæmunum fimm að aðstæður hefðu meiri áhrif á stofnkostnað jarðstrengja en loftlína. Skoðun á forsendum úrreikninganna leiddi einnig í ljós að óvissa í stofnkostnaði hefur mest áhrif á líftímakostnað jarðstrengja en fyrir loftlínur hefur rekstrarkostnaður og kostnaður vegna flutningstapa mikil áhrif á líftímakostnað. 

Áréttaði Jón að niðurstöður þessara útreikninga sýndu að samanburður á milli loftlína og jarðstrengja væri háður aðstæðum og því væri erfitt að vera með algildan samanburð. Skoða þyrfti hvert tilvik fyrir sig og meta vel aðstæður, hvort sem um væri að ræða lagningu strengja eða loftlína. Þá væri einnig mikilvægt að undirbyggja sem best útreikninga sem þessa – til að þeir væru sem áreiðanlegastir. 

 


Aftur í allar fréttir