Nýr snjóbíll Landsnets á Austurlandi


15.01.2014

Framkvæmd

Landsnet hefur fengið afhentan nýjan snjóbíl sem staðsettur verður á Austurlandi og bætir tilkoma hans til muna getu fyrirtækisins í að bregðast við áföllum, eins og dunið hafa á línukerfið undanfarnar vikur.

Snjóbílar og snjósleðar eru einu farartækin sem Landsnetsmenn komast um á fyrir austan og víðar á landinu um þessar mundir til að sinna aðkallandi verkefnum. Fram að þessu hefur Landsnet alfarið þurft að reiða sig á aðstoð björgunarsveita á Austurlandi en með tilkomu nýja snjóbílsins, sem nota á í viðhald og rekstur flutningsvirkja í þeim landshluta, verður hægt að bregðast enn skjótar við en verið hefur ef eitthvað kemur upp á. Björgunarsveitir verða þó áfram kallaðar til eftir því sem á þarf að halda.

Standsetning og prófanir á nýja snjóbílnum fóru fram á Egilsstöðum í dag en fyrirhugað er að hann fari í jómfrúarferð sína á morgun á Hellisheiði eystra vegna viðgerða á Vopnafjarðarlínu 1.

Myndir af nýja snjóbílnum.
Aftur í allar fréttir