Landsnets efnir til opins vorfundar um stöðu flutningskerfis raforku á Íslandi fimmtudaginn 9. apríl nk. þar sem kynntar verða nýjar áherslur í rekstri félagsins sem hafa m.a. að markmiði að tryggja landsmönnum aðgang að öruggu rafmagni til framtíðar í sátt við samfélag og umhverfi.
Landsnet stendur um þessar mundir á tímamótum. Tíu ár eru frá því félagið tók til starfa og er vorfundurinn orðinn árviss viðburður. Hann hefst með ávarpi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, og síðan mun Geir A. Gunnlaugsson stjórnarformaður horfa yfir farinn veg og fram á við.Rafvæðing til framtíðar í sátt við samfélag og umhverfi
Guðmundur Ingi Ásmundsson, sem tók við starfi forstjóra um síðustu áramót, mun kynna nýjar áherslur í rekstri Landsnets á fundinum. Þeim er m.a. ætlað að ná fram víðtækari samfélagssátt um leiðir til að þróa og viðhalda raforkuflutningskerfi Íslands, í sátt við samfélag og umhverfi. Einnig mun Friðrika Marteinsdóttir, verkefnisstjóri hjá Eflu, fjalla um rannsókn innlendra og erlendra sérfræðinga á jarðstrengjum á hærri spennu en flest bendir til að aukning verði í lagningu þeirra á Íslandi.
Þeir Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, og Eyjólfur Magnús Kristinsson, formaður Samtaka íslenskra gagnavera, munu ræða stöðu raforkuflutningskerfisins frá sínum sjónarhóli. Ferðaþjónustan er orðin stærsta atvinnugrein landsins og gagnaver eru nýr og áhugaverður vaxtasproti í íslensku atvinnulífi.
Allir velkomnir
Vorfundur Landsnets er öllum opinn og það er von félagsins að sem flestir sjái sér fært að mæta, hlýða á framsöguerindi og taka þátt í umræðum. Boðið verður upp á morgunhressingu fyrir fundinn, frá kl. 8:30, og meðan á honum stendur. Þeim sem komast ekki á fundinn er bent á að hægt verður að fylgjast með beinni útsendingu á heimasíðu Landsnets, landsnet.is. Jafnframt verður hægt er að koma spurningum á framfæri á twitter undir #landsnet, eða á netfanginu landsnet@landsnet.is.
Myndin er frá vorfundi 2014.