Í dag tókum við hjá Landsneti í notkun nýjan www.landsnet.is og kynntum um leið til sögunnar nýtt merki Landsnets. Vefnum og merkinu er ætlað að endurspegla þær breyttu áherslur sem við höfum verið að vinna eftir á undanförnum árum.
Örugg raforka er ein af meginstoðum nútíma samfélags og það hefur verið lykilverkefni okkar frá stofnun Landsnets að huga að rafvæddri framtíð í sátt við samfélagið. Áhersla er lögð á að skoða ólíkar lausnir með heildarhagsmuni samfélagsins að leiðarljósi.
Við höfum leitast við að sýna þessar áherslur í verki, með nýjum vinnubrögðum og eru þær breytingar sem gerðar voru á síðustu kerfisáætlun dæmi um hvernig áherslurnar raungerast allt frá samtali og samráði til framsetningar.
Við leggjum áherslu á frumkvæði í upplýsingagjöf og að allir séu vel upplýstir um starfsemi Landsnets á hverjum tíma. Okkur er umhugað um að upplýsingagjöf sé ítarleg, auðskiljanleg, heiðarleg og hreinskilin og til þess fallinn að auka traust við alla sem eiga í samskiptum við okkur.
Ný ásýnd og merki Landsnets sækja innblástur í kraft rafmagns og andstæðra póla. Litirnir blár og rauður verða í aðalhlutverki þar sem rauður táknar kraft, metnað og orku meðan blái liturinn stendur fyrir traust, ábyrgð, einlægni og fagmennsku. Nýtt merki Landsnets ber einkenni eldingar sem er augljós og alþjóðleg tenging við rafmagn, en formið táknar einnig flutning á rafmagni frá uppruna til notanda. Ný ásýnd Landsnets verður smám saman innleidd í starfsemi fyrirtækisins á vormánuðum 2017.
Ef þið hafið einhverjar athugasemdir eða tillögur um það sem mætti betur fara á nýja vefnum okkar þá endilega hafið samband – vefurinn verður í stöðugri uppfærslu næstu vikur og misseri og ykkar innlegg væri vel þegið.
Hlökkum til að heyra frá ykkur.