Skýrsla sem Verkfræðistofan Efla vann fyrir Landsnet um líftímakostnað loftlína og jarðstrengja sýnir að kostnaðurinn er algerlega háður aðstæðum hverju sinni og því ekki hægt að fastsetja ákveðið hlutfall. Niðurstöðurnar sýna einnig að verulegur munur getur verið á kostnaði jarðstrengja eftir aðstæðum en þær hafa heldur minni áhrif á kostnað loftlína.
Reiknaður var líftímakostnaður lína með flutningsgetu um 400 MVA og strengja með flutningsgetu 300 MVA við fimm mismunandi aðstæður. Stofnkostnaður við jarðstrengi var fenginn úr nýlegri skýrslu Mannvits fyrir Landsnet en stofnkostnaður loftlína var metinn með kostnaðarlíkani sem Efla útbjó fyrir Landsnet. Þá eru vörugjöld sem leggjast á jarðstrengi dregin frá stofnkostnaði þeirra til að samanburðurinn sé á þjóðhagslegum grunni.Helsta niðurstaða skýrslunnar, sem nú hefur verið gerð aðgengileg á vef Landsnets, er að erfitt er að vera með algildan samanburð á milli loftlína og jarðstrengja því kostnaðurinn er algerlega háður aðstæðum. Því þarf að skoða hvert tilvik fyrir sig og meta aðstæður, hvort sem um er að ræða lagningu strengja eða loftlína. Áætlaður kostnaður vegna áhrifa mannvirkja á umhverfið var ekki tekinn inn í reikninga Eflu, nema sem áætlaðar bætur fyrir land, enda erfitt að meta slíkan kostnað auk þess sem hann getur verið breytilegur eftir aðstæðum, hvort sem um er að ræða línur eða strengi.
Loftlínur og jarðstrengir. Kostnaðarsamanburður 220 kV – fimm tilfelli (Útg. janúar 2014))