Ný aðveitustöð RARIK og afhendingarstaður Landsnets tekin í notkun á Höfn


23.01.2014

Framkvæmd

Afhendingargeta raforku tvöfaldast á Hornafjarðarsvæðinu og afhendingaröryggi eykst stórlega með tilkomu nýrrar aðveitustöðvar RARIK á Höfn í Hornafirði og nýjum útgangi Landsnets í aðveitustöð á Hólum ásamt 132 kV tengingu frá Hólum til Hafnar.

Bæjarstjóri Hornafjarðar, Ásgerður Gylfadóttir, tók í dag formlega í notkun nýja aðveitustöð RARIK á Höfn þegar spennu var hleypt inn á rafskautsketil í fiskimjölsverksmiðju Skinneyjar-Þinganess. Þar með skapast möguleiki á notkun raforku í stað olíu í verksmiðjunni.

Aðeins er rúmt ár frá því að Landsnet og RARIK gengu frá samkomulagi við Skinney-Þinganes um aukna afhendingu á raforku fyrir fiskimjölsverksmiðjuna á Höfn. Eins og kunnugt er hafa uppsjávarfyrirtækin, ekki síst á Austurlandi, fært sig í vaxandi mæli frá því að nota olíu yfir í notkun á innlendri raforku. Hafa nú allar fiskimjölsverksmiðjur frá Vopnafirði suður til Hornafjarðar skipt yfir á rafmagn í stað olíu, sem getur samt þurft að grípa til þegar byggðalínan er fulllestuð og annar ekki eftirspurn.

Framkvæmdirnar á Höfn gengu hratt og vel. RARIK byggði nýja aðveitustöð, setti upp 30 MVA aflspenni og aflrofa, auk þess að leggja háspennustrengi að verksmiðjunni, m.a. í rörum undir höfnina. Landsnet bætti við 132 kV útgangi í aðveitustöðinni á Hólum í Hornafirði og lagði um 1,5 km langan 132 kV jarðstreng milli Hóla og tengivirkis RARIK á Höfn. Kemur strengurinn til viðbótar við 132 kV línu sem þarna er, sem var rekin á 11 kV spennu, en var nú spennuhækkuð upp í 132 kV.

Með þessu hefur flutningsgetan inn á Hornafjarðarsvæðið tvöfaldast og afhendingaröryggi aukist verulega, því nú eru tvær aðskildar leiðir inn til Hornafjarðar frá 132 kV byggðalínukerfinu. Skapar það möguleika á enn frekari atvinnuuppbyggingu á svæðinu.

Heildarkostnaður RARIK við þessar framkvæmdir nemur um 300 milljónum króna og kostnaður Landsnets er um 200 milljónir króna.

Nánari upplýsingar veita:
Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, sími 893 5150.
Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, sími 893 5621.

Aftur í allar fréttir