Starfsfólk Landsnets, Vegagerðarinnar og ráðgjafar sem vinna að mati á umhverfisáhrifum Sprengisandslínu og Sprengisandsleiðar eru ánægðir með þann mikla áhuga sem gestir í opnu húsi í Þingeyjasveit sýndu áformum um fyrirhugaða Sprengisandslínu og nýja Sprengisandsleið.
Um 50 manns, víðsvegar að af svæðinu frá Eyjafirði og austur að Mývatni og Húsavík, mættu í Ljósvetningabúð í Þingeyjasveit í gær þar sem kynnt voru drög að matsáætlun vegna Sprengisandslínu annars vegar og Sprengisandsleiðar hins vegar. Gáfu gestir sér góðan tíma til að kynna sér fyrirhugaðar framkvæmdir og ræða málin við starfsfólk Vegagerðarinnar, Landsnets og ráðgjafa sem stjórna vinnu við umhverfismat verkefnanna. Sýndu gestirnir málinu mikinn áhuga og spurðu bæði um leiðarval,valkosti, forsendur o.fl.Opið hús á Hellu i dag
Íbúum á Suðurlandi og öllum sem áhuga hafa gefst tækifæri til að kynna sér drög að tillögur að mati á umhverfisáhrifum Sprengisandslínu og Sprengisandsleiðar í opnu húsi í stjórnsýsluhúsinu á Hellu milli kl. 16-20 í dag. Eins og í Þingeyjarsveit verða fulltrúar frá Landsneti, Vegagerðinni og ráðgjöfum til staðar í opna húsinu á Hellu, til að svara fyrirspurnum, og eru allir velkomnir.
Einnig er fyrirhugað að vera með opið hús í Reykjavík á næstunni en á þessari stundu liggur ekki fyrir hvar og hvenær það verður.