Leyfisveiting Orkustofnunar vegna Suðurnesjalínu 2 kærð


10.01.2014

Framkvæmd

Leyfisveiting Orkustofnunar til Landsnets um að reisa og reka Suðurnesjalínu 2 hefur verið kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Skal úrskurður nefndarinnar liggja fyrir eins fljótt og kostur er.

Kærendur eru Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Landvernd og vísa þeir til 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi, einnig að Orkustofnun verði gert að meta flutningsþörf fyrir raforku á umræddri línuleið og að Landsnet líti til fleiri valkosta við útfærslu línunnar, þar með talið jarðstrengja.

Málsaðilar hafa frest til 10. febrúar nk. til að gera athugasemdir við kæruna en síðan skal úrskurðarnefndin kveða upp úrskurð sinn „eins fljótt og kostur er og jafnan innan þriggja mánaða frá því að málsgögn bárust frá stjórnvaldi, sbr. 5. mgr., en innan sex mánaða frá sama tímamarki sé mál viðamikið,“ eins og segir um málsmeðferð og kæruaðild í 4. gr. laganna um úrskurðarnefndina.

Aftur í allar fréttir