Launaflsvirki Landsnets á Klafastöðum við Grundartanga tekið í notkun


18.02.2014

Framkvæmd

Nýtt launaflsvirki Landsnets á Klafastöðum við Grundartanga var formlega tekið í notkun þegar Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra spennusetti virkið við athöfn í dag. Þetta er stærsta einstaka verkefni Landsnets á liðnum árum og nam heildarkostnaður rúmum tveimur milljörðum króna. Launaflsvirkið bætir verulega rekstur raforkuflutningskerfis Landsnets, eykur afhendingaröryggi og gerir Landsneti kleift að flytja meiri orku inn á Grundartangasvæðið.

Ákveðið var að ráðast í Klafastaðaverkefnið þegar ljóst var að launaflsskortur var farinn að hamla frekari álagsaukningu í tengivirkinu á Brennimel í Hvalfirði, stærsta afhendingarstað orku í flutningskerfi Landsnets. Þangað liggja þrjár 220 kílóvolta flutningslínur og þar er tengipunktur við iðnaðarsvæðið á Grundartanga. Tveir stórir notendur, Norðurál og Elkem Ísland, eru tengdir þar við kerfið ásamt fjölda annarra smærri fyrirtækja. Á Brennimel er einnig tenging inn á dreifikerfi RARIK og annar upphafspunktur byggðalínunnar.

„Það er áhugi hjá bæði núverandi notendum og nýjum aðilum að fá afhenta meiri orku á Grundartanga en við höfum ekki fyrr en nú verið í stakk búin til að sinna þeim óskum. Frekar en að ráðast í umfangsmiklar breytingar og endurbætur á tengivirki okkar á Brennimel og lagningu nýrrar línu inn á iðnaðarsvæðið var farin sú leið að reisa nýtt launaflsvirki hér á Grundartanga með besta tæknibúnaði sem völ er á. Hann hefur þegar sannað sig í prufurekstri virkisins og er mikilvæg viðbót við þær snjallnetslausnir sem við erum að innleiða í rekstri og stjórn raforkukerfisins til að auka afhendingaröryggi,“ segir Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets.

Uppsetning launaflsvirkisins er fyrsta skrefið í endurskipulagningu orkuafhendingar Landsnets á Grundartanga og með tilkomu þess er mögulegt að auka flutning eftir núverandi línum. Orkuflutningsgetan eykst umtalsvert til svæðisins sem er í takt við þau uppbyggingaráform og skipulagsbreytingar sem bæði Faxaflóahafnir og Hvalfjarðarsveit hafa unnið að á Grundartanga. Í framtíðinni mun virkið stækka og afhending orku til notenda verða möguleg frá tveimur stöðum á svæðinu. Þannig minnkar mikilvægi spennistöðvarinnar á Brennimel við þessa ráðstöfun en afhendingaröryggi eykst.

Launaflsvirkið bætir einnig verulega spennustýringu flutningskerfisins og verður Landsnet mun betur í stakk búið til að bregðast við snöggum álagsbreytingum og áhrifum truflana í kerfinu með virkri spennustýringu. Þetta mun jafnframt bæta spennugæðin umtalsvert í kerfinu og ættu notendur um allt land að njóta góðs af því.


Við hönnun Klafastaðavirkisins var haft að leiðarljósi að draga sem mest úr umhverfisáhrifum slíkra mannvirkja. Liður í því er að hafa virkið yfirbyggt sem eykur líka rekstraröryggið og stórbætir endingu alls búnaðar.


Bygging launaflsvirkisins kostaði rúma tvo milljarða króna og er stærsta einstaka verkefni sem Landsnet hefur ráðist í á undanförnum árum. Undirbúningur þess hófst árið 2010 og var samið við ABB í Svíþjóð um kaup og uppsetningu á búnaði. Uppsetningu hans lauk í desember 2013 og frá þeim tíma hefur virkið verið í tilraunarekstri með tilheyrandi tækniprófunum.

Nánari upplýsingar veitir:
Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, sími 893 5621, thordurg@landsnet.is.
Aftur í allar fréttir