Landsnet þátttakandi í evrópskri rannsókn til að tryggja stöðugleika raforkukerfa til framtíðar


22.01.2016

Framkvæmd

Landsnet er meðal þátttakenda í evrópska rannsóknarverkefninu MIGRATE (Massive Integration of Power Electronic Devices) sem hlotið hefur um 17 milljón evra styrk úr Horizon 2020 rammaáætlun Evrópusambandsins fyrir rannsóknir og nýsköpun. Verkefninu var hleypt formlega af stokkunum í vikunni og er vonast til að það skili niðurstöðum sem hjálpi til við að tryggja stöðugleika raforkukerfa eftir því sem endurnýjanlegum orkugjöfum fjölgar sem tengdir eru við þau.

„Okkar þáttur í rannsókninni snýr að því að sannreyna með prófunum nýja aðferðafræði til að meta stöðugleika raforkukerfa og annast raunprófanir á nýrri tegund víðstýringa sem þróa á í rannsóknarferlinu,“ segir Íris Baldursdóttir, framkvæmdastjóri kerfisstjórnunarsviðs Landsnets.

Ísland kjörinn rannsóknarvettvangur
Meginmarkmið MIGRATE verkefnisins er að rannsaka leiðir til að auka stöðugleika raforkukerfa sem búa við síminnkandi tregðuvægi vegna aukinnar notkunar endurnýjanlegra orkugjafa, s.s. vind- og sólarorku og æ fleiri háspenntra jafnstraumstenginga (HVDC) milli kerfa. Þessi þróun, ásamt áformum sem eru víða um að leggja niður hefðbundin kola-, gas- og kjarnorkuver sem í dag standa fyrir mikið tregðuvægi í kerfinu, hefur skapað óvissu um hvernig tryggja megi stöðugleika raforkukerfa til framtíðar.

„Ísland er kjörinn rannsóknarvettvangur því raforkukerfið okkar er með mjög lágt tregðuvægi, samanborið við samtengd kerfi annarra Evrópulanda, og við glímum við stöðugleikavandamál við ýmsar rekstraraðstæður sökum smæðar kerfisins og afar veikra tenginga milli landsvæða,“ segir Íris. Til að bregðast við þessum aðstæðum hafi Landsnet m.a. þróað víðmælikerfi sem horft er mjög til í verkefninu - og geri umræddar prófanir mögulegar hérlendis.

„Íslenska raforkukerfið er því mjög áhugavert fyrir MIGRATE verkefnið þó það sé ekki hluti af hinu samtengda evrópska raforkukerfi. Annars vegar vegna eiginleika kerfisins og hins vegar vegna þess hversu framarlega Landsnet stendur á heimsvísu varðandi mælingar og rauntímagreiningu á stöðu kerfisins hverju sinni,“ segir Íris Baldursdóttir.

25 þátttakendur frá 13 Evrópulöndum
MIGRATE rannsóknarverkefnið stendur yfir næstu fjögur árin og eru þátttakendur alls 25 talsins frá 13 löndum. Auk Landsnets taka 11 önnur raforkuflutningsfyrirtæki í Evrópu þátt, ásamt sjö háskólum og nokkrum rannsóknarstofnunum og birgjum. Þar má m.a. nefna flutningsfyrirtækin Fingrid í Finnlandi, RTE í Frakklandi, Eirgrid á Írlandi og Tennet í Þýskalandi sem stýrir jafnframt verkefninu, og háskóla í Þýskalandi, Sviss, Hollandi, Írlandi, Englandi, Eistlandi og Slóveníu.

Verkefnið skapar um 150 ársverk en heildarkostnaður við það er áætlaður um 18 milljónir evra. Rúmlega ein milljón evra kemur frá stjórnvöldum í Sviss og tæplega 17 milljónir evra frá Horizon 2020, rammaáætlun Evrópusambandsins. Hún er umfangsmesta áætlun ESB á sviði rannsókna og nýsköpunar til þessa og samanstendur af þremur undiráætlunum. MIGRATE verkefnið heyrir undir „samfélagslegar áskoranir“, ásamt öðrum verkefnum tengdum orkumálum, með áherslu á að orkugjafar framtíðarinnar séu öruggir, hreinir og hagkvæmir.

Myndir frá upphafsfundi MIGRATE verkefnisins í Brussel 19. - 20. janúar 2016.
Aftur í allar fréttir