Í stað þess að senda jólakort veitir Landsnet hf. árlega styrki til líknar- og velferðarsamtaka sem gegna mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi.
Þau félög sem hlutu styrk í ár hvor að upphæð 250 þúsund krónur voru Specialisterne á Íslandi og Styrktarfélag barna með einhverfu.Specialisterne á Íslandi er sjálfseignarstofnun sem vinnur að því að hjálpa einstaklingum á einhverfurófinu til sjálfshjálpar. Markhópurinn er einstaklingar frá 18 ára aldri, en markmiðið er að meta og þjálfa 14 - 18 einstaklinga á ári og tryggja sem flestum þeirra launaða vinnu. Á síðustu fjórum árum hafa verið um 80 einstaklingar í þjálfun, en af þeim hafa 31 fengið launaða vinnu á hinum almenna vinnumarkaði. Flestir þessara einstaklinga höfðu ekki áður neina reynslu af launaðri vinnu og því mikið og stórt skref fyrir þá.
Á heimasíðu Styrktarfélags barna með einhverfu segir:
Einhverfir þurfa oft, sökum fötlunar sinnar, að glíma við ýmsar hindranir í sínu lífi sem aðrir yfirstíga án fyrirhafnar. Því skiptir höfuðmáli að börn með einhverfu séu greind snemma og fái rétta þjálfun sem allra fyrst því rannsóknir hafa sýnt að það skiptir sköpum til að tryggja þessum einstaklingum bjarta framtíð. Því eru sérkennslugögn og viðeigandi þjálfun starfsfólks sem sinnir sérkennslu fyrir börn með einhverfu eitt þeirra málefna sem styrktarfélagið vill hlúa að.
Myndin sýnir frá afhendingu styrkjana. Guðmunudr Ingi Ásmundsson afhenti styrkina til Ragnhildar Ágústsdóttur frá Styrktarfélagi barna með einhverfu og Bjarna Torfa Álfþórssonar frá Specialisterne á Íslandi.