Landsnet hefur undirritað samkomulag við Rafeyri um uppsetningu á háspennubúnaði í nýju tengivirki Landsnets í Helguvík. Samningurinn hljóðar upp á 129 milljónir króna og er miðað við að framkvæmdum verið að fullu lokið í janúar 2016.
Nýja tengivirkið, sem fengið hefur nafnið Stakkur, er við hlið kísilvers United Silicon (USi) við Stakksbraut og hannað með hugsanlega stækkun í huga. Þrír 132 kílóvolta (kV) rofar verða í tengivirkinu og tveir spennar, annar sem tengist kísilverinu og hinn í eigu HS Veitna. Verkið felur í sér uppsetningu á þremur háspennurofum og öðrum háspennubúnaði í tengivirkinu. Samningurinn hljóðar upp á 129 milljónir króna og skal verkinu að fullu lokið í janúar 2016.Undirbúningur tengivirkisins Stakks hófst hjá Landsneti haustið 2014 í framhaldi af samningi um flutning raforku til kísilvers USi í Helguvík. Hann kveður á um að tengingin verði tilbúin 1. febrúar 2016 en auk byggingar tengivirkisins Stakks, felur verkefnið í sér uppsetningu á nýjum rofa í tengivirkinu á Fitjum og 9 km langan 132 kV jarðstreng milli Fitja og Helguvíkur. Gengið var frá samningum um kaup á jarðstreng og spenni árið 2014. Samið var við þýska fyrirtækið Nexans um jarðstrengskaupin og verður hann lagður sumarið 2015. Nú er unnið að hönnun og undirbúningi strenglagningarinnar í nánu samráði við þýska fyrirtækið og mun það jafnframt sjá um allar tengingar.