Landsnet undirritaði í dag samkomulag við ÍSTAK um lagningu jarðstrengs milli Fitja og Helguvíkur og er miðað við að framkvæmdum verði að fullu lokið haustið 2015.
Samningurinn, sem undirritað var af Guðmundi Inga Ásmundssyni, forstjóra Landsnets og Óskari Jósefssyni, framkvæmdastjóra ÍSTAKS, er upp á tæplega 228 milljónir króna. Fyrirtækið hefur mikla reynslu af lagningu jarðstrengja fyrir Landsnet og lagði meðal annars Nesjavallastreng 2, 25 km langan streng milli Nesjavalla og Geitháls, árið 2010. Strax verður hafist handa við undirbúning og slóðagerð í Helguvík og standa vonir til að hægt verði að byrja að grafa fyrir jarðstrengnum í næstu viku.Undirbúningur jarðstrengsverkefnisins hófst hjá Landsneti haustið 2014, í framhaldi af samningi um flutning raforku til kísilvers United Silicon sem kveður á um að tengingin verði tilbúin 1. febrúar 2016. Strengurinn mun tengja saman Stakk, nýtt tengivirki Landsnets í Helguvík sem nú er í byggingu, og tengivirki félagsins á Fitjum. Hann er gerður fyrir 132 kílóvolta (kV) spennu, verður 8,5 km langur og er með heilum álleiðara, sem er nýmæli í jarðstrengjum. Samið var við þýska fyrirtækið Nexans um framleiðslu strengsins og mun það jafnframt sjá um allar tengingar.