Landsnet og PCC semja á ný um orkuflutning vegna kísilvers á Bakka


25.03.2015

Framkvæmd

Landsnet hefur undirritað nýtt samkomulag um raforkuflutninga við PCC vegna kísilvers á Bakka við Húsavík. Þar koma fram ítarlegri skýringar á samkomulagi fyrirtækjanna, samkvæmt leiðbeiningum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), en voru í fyrri samningi félaganna. Jafnframt hefur nýi samningurinn verið sendur ESA til samþykktar.

„Það er von okkar að með þessum nýja samningi, sem er efnislega á svipuðum nótum og fyrri samningur félaganna en inniheldur ítarlegri skýringar samkvæmt leiðbeiningum ESA, komist verkefnið aftur á skrið,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnes. Undirbúningur vegna verkefnisins fer nú aftur af stað hjá Landsneti og framkvæmdir geta hafist um leið og öllum fyrirvörum hefur verið aflétt, þar á meðal um samþykki ESA.

Samkvæmt samkomulaginu skal Landsnet tryggja orkuflutning til kísilvers PCC frá meginflutningskerfinu og þeim framleiðslueiningum sem munu tryggja verkefninu raforku. Miðað er við að orkuafhending hefjist í nóvember 2017, komi ekkert óvænt upp á.

Áætluð aflþörf fyrsta áfanga verksmiðjunnar er 52 megavött (MW) og framleiðslugetan er fyrirhuguð 32-40 þúsund tonn af kísilmálmi á ári, með möguleika á stækkun upp í allt að 80 þúsund tonna árlega framleiðslu. Þá er gert ráð fyrir að kísilverið skapi um 125 framtíðarstörf á svæðinu, að ótöldum þeim störfum sem verða til vegna kaupa á þjónustu og fleiru.

Heildarkostnaður vegna tengingar iðnaðarsvæðisins og Þeistareykjavirkjunar er metinn á tæplega fimm milljarða króna.

Mynd:
Frá vinstri: Dietmar Kessler, fulltrúi framkvæmdastjórnar PCC, Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets og Peter Wenzel, aðstoðarforstjóri þróunarsviðs PCC.
Aftur í allar fréttir