Landsnet lækkar gjaldskrá upprunaábyrgða endurnýjanlegrar orku


30.10.2013

Framkvæmd

Gjaldskrá Landsnets vegna upprunaábyrgðar á raforku hefur verið lækkuð um tæplega 40% þar sem tekjur fyrirtækisins af útgáfu upprunaskírteinanna hafa reynst umtalsvert meiri en gert var ráð fyrir þegar útgáfa þeirra hófst fyrir tæpum tveimur árum.

Upprunaábyrgð er staðfesting á að raforka sé framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum, þ.m.t. vindorku, sólarorku, jarðvarmaorku, öldu- og sjávarfallaorku, vatnsorku og orku úr lífmassa, hauggasi, gasi frá skólphreinsunarstöðvum og lífgasi, en ekki orkugjöfum úr jarðefnaeldsneyti.

Upprunaábyrgðir geta gengið kaupum og sölum og getur hvatinn fyrir slíkt verið margvíslegur, allt frá lagalegri skyldu að uppfylla ákveðinn grænan kvóta til þess að vilja sýna út á við að viðkomandi ýti undir nýtingu á endurnýjanlegum orkugjöfum við framleiðslu raforku.

Nú, þegar Landsnet hefur öðlast tæplega tveggja ára reynslu af þessari útgáfu, er ljóst að að kostnaður vegna útgáfu skírteinanna og umsjónar hefur verið lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir, auk þess sem sölumagnið hefur verið umtalsvert meira en væntingar voru um. Því hefur verið ákveðið að lækka gjaldskrána að hluta til. Þannig hefur gjald fyrir hvert útgefið skírteini lækkað úr sjö krónum fyrir megawattstundina (MWh) í 4,3 krónur. Aðrir gjaldskrárþættir eru óbreyttir.

Þessu fyrirkomulagi upprunaábyrgða var komið á til að auka virði raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Markaður fyrir upprunaábyrgðir er aðskilinn frá hinum raunverulega raforkumarkaði, þ.e. upprunaábyrgðir fylgja ekki með sölu raforkunnar og geta vinnslufyrirtækin þannig aukið tekjur sínar með því að selja upprunaábyrgðirnar sem þau fá fyrir framleiðslu sína hjá Landsneti.

Aftur í allar fréttir