Landsnet í viðbragðsstöðu komi til eldsumbrota í norðanverðum Vatnajökli


21.08.2014

Framkvæmd

Viðbragðsáætlanir Landsnets vegna eldgosa og náttúruhamfara hafa verið yfirfarnar og búið að gera ráðstafanir vegna varafls á þeim svæðum sem gætu orðið straumlaus ef flutningslínur gefa sig, komi til eldsumbrota í norðanverðum Vatnajökli.

Hjá Landsneti eru það helst flutningsvirkin, eða línurnar sem geta skemmst í slíkum hamförum sem gætu orðið í kjölfar eldgoss. Á hættusvæðinu á Norðausturlandi er annars vegar um að ræða Byggðalínuna og hins vegar flutningslínur í svæðiskerfinu, s.s. eins og Kópaskerslínu. Í samvinnu við RARIK hefur verið gripið til ráðstafana til að hafa tiltækt varafl á svæðinu með rekstri díselstöðva en ekki er útlokað að grípa þurfi til einhverra skerðinga, t.d. ef Byggðalínan gæfi sig.

Allur mannskapur hjá Landsneti er í viðbragðsstöðu og búið er að yfirfara viðbragðsáætlanir, tækjabúnað og stöðu á viðgerðar- og varaefni sem gæti þurft að nota. Jafnframt hefur verið haft samband við vertaka og fyrirtæki sem geta aðstoðað ef þörf yrði á meiri mannskap og búnaði en Landsent ræður yfir. Einnig er verið að fara yfir viðbragðsáætlanir Landsnets vegna Suðvesturlands, ef til þess kæmi að áhrif hugsanlegra náttúruhamfara teygðu sig þangað.
Aftur í allar fréttir