Fjölmargir heimsóttu kynningarbás Landsnets á framadögum háskólanna sem fram fóru í Háskólanum í Reykjavík í gær, fimmtudaginn 5. febrúar, og fengu kynningu á fyrirtækinu og starfsemi þess ásamt upplýsingum um laus störf.
Framadagarnir eru ætlaðir háskólanemum, bæði núverandi og útskrifuðum, með það að markmiði að þeir geti kynnt sér starfsemi og aflað sér upplýsinga um bæði möguleg sumar- og framtíðarstörf. Var þetta í 20. sinn sem efnt var til framadaganna og voru um 60 fyrirtæki meðal þátttakenda, sem er metfjöldi. Viðburðurinn hófst með setningarathöfn þar sem Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnar- og viðskiptaráðherra, flutti ávarp auk þess sem fjöldi áhugaverðra fyrirlestra var á dagskrá.
Samstarf við háskóla og menntastofnanir mikilvægt
Landsnet hefur tekið þátt í framadögunum undanfarin ár, enda leggur fyrirtækið áherslu á gott samstarf við bæði háskóla og aðrar menntastofnanir. Einn liður í því er að kynna fyrir nemum starfsemi fyrirtækisins ásamt því að vekja athygli á og afla umsókna vegna mögulegra framtíðarstarfa innan fyrirtækisins sem og sumarstarfa háskólanema, en opnað var á dögunum fyrir umsóknir um sumarstörf hjá Landsneti.
Mikill fjöldi nema og annarra gesta, þ.á.m. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, komu við í básnum hjá Landsneti.