Umfjöllun um uppsetningu hugbúnaðarins Promaps Online hjá Landsneti er forsíðuefni nýjasta tölublaðs norska raforkutímaritsins Volt. Rætt er við Írisi Baldursdóttur, framkvæmdastjóra kerfisstjórnunarsviðs, um mikilvægi þess að þróa nýjar lausnir við greiningu á áreiðanleika afhendingar raforku og stöðu íslenska raforkukerfisins.
Landsnet leggur mikla áherslu á þróun nýrra og betri lausna til að greina áreiðanleika afhendingar raforku og er uppsetning norska Promaps-hugbúnaðarins liður í þeim rannsóknar- og þróunarverkefnum. Viðmiðið sem stuðst er við í dag um allan heim er svokölluð „N-1“ aðferðafræði og byggir á því að raforkukerfið eigi á hverjum tíma að standast truflun á einni einingu án þess að það valdi straumleysi til notenda. Þessi nálgun er hins vegar mjög almenn því hún tekur ekki tillit til líkinda á truflunum eða viðgerðartíma. Þá hefur stýri- og fjarskiptatækni fleygt fram á undanförnum árum og því nauðsynlegt að virkni þeirra sé einnig hluti af áreiðanleikagreiningunni.Líkt og GPS kerfi í bíl
Promaps-hugbúnaðurinn greinir áreiðanleika raforkukerfisins í rauntíma og í viðtalinu í Volt líkir Íris búnaðinum við GPS kerfi í bíl. Það nægi ekki að vera á velbúnum jeppa þegar lagt er af stað í ferðalag, nauðsynlegt sé einnig að vera með kerfi sem veiti upplýsingar um staðsetningu og leiðarval og ekki saki að vera með góða veðurspá við höndina. Sama eigi við þegar unnið er við stjórnun raforkukerfisins. Nauðsynlegt sé að hafa nákvæmar upplýsingar um stöðu kerfisins hverju sinni til að taka ákvarðanir um hvernig skuli stýra því næstu mínúturnar, klukkustundirnar og vikurnar. Rekstur raforkukerfisins er síbreytilegur og flókið verkefni að meta í rauntíma helstu áhættur í rekstri. Íris áréttar að raforkugeirinn allur standi frammi fyrir miklum breytingum. Á síðustu árum hafi verið hröð þróun í mæli- og stýritækni. Landsnet hafi nýtt þær tækniframfarir til að fá betri upplýsingar um kerfið í rauntíma og þau gögn eru forsenda frekari þróunar áreiðanleikagreiningar í rauntíma.
Uppsetning á Promaps hjá Landsneti er mikilvægt skref í átt að meiri skilningi á áreiðanleika kerfisins og stórt stökk frá núverandi „N-1“ nálgun yfir í aðferðafræði sem byggir á flókinni líkindafræði og mun meiri upplýsingum frá orkustjórnkerfi Landsnets og eignagrunni segir Íris. Framundan sé því mikið verkefni við að greina og þróa þessa nýja aðferðafræði, svo hún gagnist í daglegum rekstri.
Aukin þekking lykill að betri rekstri
Í viðtalinu í Volt er einnig fjallað um stöðu íslenska raforkukerfisins sem er einangrað frá öðrum kerfum og með tiltölulega fáar tengingar miðað við hvað það annar mikilli raforkunotkun. Samfélagið allt er mjög háð rafmagni og notendur kröfuharðir, bæði varðandi gæði rafmagns og afhendingaröryggi segir Íris. Því leggi Landsnet mikla áherslu á að þróa stýringar og snjallnetslausnir sem auki stöðugleika kerfisins og áreiðanleika afhendingar, ásamt öðrum fyrirbyggjandi aðgerðum. Hún bendir á að lykillinn að því að reka íslenska raforkukerfið með öruggum og hagkvæmum hætti sé að nálgast það með aðferðafræði áhættustjórnunar og aukinni áreiðanleikagreiningu. Mikil þekking sé þegar til staðar á stjórn og rekstri raforkukerfisins við krefjandi aðstæður þar sem ýmis konar náttúruvá er yfirvofandi stóran hluta ársins. Vonir standi til þess að bæði Promaps-hugbúnaðurinn og önnur rannsóknar- og þróunarverkefni á sviði áreiðanleikagreiningar styðji enn frekar við hlutverk þeirra sem stjórna raforkukerfinu - og geti til lengri tíma litið metið og bestað þær ákvarðanir sem stjórnstöð Landsnets stendur frammi fyrir hverju sinni.
Um Volt
Volt tímaritið hóf göngu sína árið 2004 og er dreift til allra helstu hagsmunaaðila í norska raforkugeiranum. Volt fjallar um raforkumál í Noregi á víðum grundvelli, s.s. raforkuframleiðslu, -dreifingu og notkun, ásamt tæknimálum allskonar tengdum raforku.
Prentað upplag er ríflega 5.000 eintök, jafnframt því sem blaðið er aðgengilegt á netinu.