Landsent tilnefnt til menntaverðlauna atvinnulífsins 2014


20.02.2014

Framkvæmd

Landsnet er í hópi átta fyrirtækja sem tilnefnd eru til menntaverðlauna atvinnulífsins sem veitt verða í fyrsta sinn í byrjun næsta mánaðar. Verðlaunin eru veitt fyrirtækjum sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Fjögur fyrirtæki eru tilnefnd sem menntafyrirtæki ársins og fjögur fyrirtæki eru tilnefnd sem menntasproti ársins og er Landsnet í þeim hópi.

Verðlaunaafhendingin fer fram á menntadegi atvinnulífsins sem Samtök atvinnulífsins og fleiri aðilar standa að 3. mars næstkomandi. Menntun og fræðsla sem nýtist öllu atvinnulífinu verður þar í kastljósinu en þetta er í fyrsta sinn sem fulltrúar ólíkra atvinnugreina halda sameiginlegan menntadag.

Tilnefnd sem menntafyrirtæki ársins 2014 eru Isavia, Landsbankinn, Rio Tinto Alcan á Ísland og Samskip og sem menntasproti ársins 2014 eru tilnefnd Codland, Landsnet, Leikskólinn Sjáland og Nordic Visitor.

Fyrirtækin sem eiga möguleika á að hljóta menntaverðlaun atvinnulífsins 2014 verða kynnt rækilega á vef Samtaka atvinnulífsins í næstu viku í sérstökum sjónvarpsinnslögum sem verið er að taka upp þessa dagana en fyrirtækjunum var tilkynnt um niðurstöðu dómnefndar í byrjun vikunnar. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, mun tilkynna hverjir hljóta verðlaunin á hátíðarsamkomu á Hótel Nordica á menntadegi atvinnulífsins.

Aftur í allar fréttir