Landsnet hefur ákveðið að hefja undirbúning mats á umhverfisáhrifum Sprengisandslínu, 220 kV háspennulínu milli Suður- og Norðurlands. Því er ætlað að kanna nánar umhverfisáhrif línunnar og leggja mat á kosti um leiðarval og útfærslur. Drög að tillögu að matsáætlun hafa nú verið lögð fram til kynningar á heimasíðu Landsnets og er athugasemdafrestur til 20. nóvember næstkomandi.
Um er að ræða nýja 220 kV háspennulínu, frá tengistað við Langöldu á Landmannaafrétti að áætluðu tengivirki við Eyjadalsá vestan Bárðardals, og er heildarlengd hennar um 195 km. Þegar er gert ráð fyrir háspennulínu og vegi um þetta svæði í aðalskipulagi viðkomandi sveitarfélaga og einnig er gert ráð fyrir háspennulínu og vegi yfir Sprengisand í gildandi svæðisskipulagi Miðhálendis Íslands til 2015. Samhliða línu yfir Sprengisand eru aðrar styrkingar nauðsynlegar í flutningskerfinu á kaflanum frá Blöndustöð að Fljótsdalsvirkjun.Þjóðhagsleg nauðsyn að styrkja raforkuflutningskerfið
Tilgangur framkvæmdarinnar er að bæta raforkukerfi landsins og auka flutningsgetu þess en flutningstakmarkanir og óstöðugleiki hafa um árabil verið mikið vandamál í rekstri byggðalínunnar. Hafa skerðingar á orkuafhendingu farið vaxandi og er nú svo komið að ástandið er farið að hamla atvinnuuppbyggingu.
„Núverandi ástand raforkuflutningskerfisins er óviðunandi og það mun einungis versna og kostnaður samfélagsins aukast ef ekki verður á allra næstu árum ráðist í styrkingu og frekari uppbyggingu kerfisins,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets en núverandi byggðalína, sem var reist í áföngum frá 1972 til 1984, er 927 km langt 132 kV hringtengt línukerfi sem nær frá Brennimel í Hvalfirði að Sigölduvirkjun.
Í kerfisáætlun Landsnets fyrir árin 2014-2023 er sett fram tenging frá Suðurlandi til Norðurlands, í tveimur valkostum af þremur, sem ætlað er að bæta fyrir ofangreinda annmarka í flutningskerfinu. Þar er lína um Sprengisand mikilvægur hlekkur. Í samanburði við aðrar lausnir er tenging frá raforkuvinnslukjarnanum á Suðurlandi við norðurhluta landsins talin fljótvirkasta styrking raforkukerfisins.
Vinna við matsáætlun hafin
Vinna við mat á umhverfisáhrifum Sprengisandslínu er hafin en framkvæmdin er matsskyld samkvæmt 22. tl. í 1. viðauka laga nr. 106/2000 m.s.br. um mat á umhverfisáhrifum. Samhliða vinnur Vegagerðin að mati á umhverfisáhrifum fyrir nýja Sprengisandsleið, veg F26 með varanlegu slitlagi, og hafa Vegagerðin og Landsnet haft samstarf um leiðaval. Áhersla er lögð á að hvor framkvæmd um sig taki sem mest tillit til hinnar og að fyrirhuguð Sprengisandslína verði sem minnst sýnileg frá væntanlegri Sprengisandsleið.
Drög að tillögu að matsáætlun vegna Sprengisandslínu hafa nú verið lögð fram til kynningar á heimasíðu Landsnets. Matsáætlun er verkefnisáætlun fyrir mat á umhverfisáhrifum. Í henni er fyrirhugaðri framkvæmd, valkostum og framkvæmdarsvæði lýst og fjallað um umfang og áherslur mats á umhverfisáhrifum. Jafnframt er tilgreint hvaða gögn eru fyrir hendi sem nýtt verða við matsvinnuna og hvaða viðbótargagna þurfi að afla vegna verkefnisins.
Í frummatsskýrslu verður lagt mat á áhrif framkvæmdar á eftirfarandi þætti: Gróður, fuglalíf, jarð-myndanir, fornleifar, svæði á náttúruminjaskrá og náttúruverndaráætlun, víðerni, neysluvatn og vatnsvernd. Þá verða einnig metin áhrif framkvæmdarinnar á landslag og ásýnd, félagslega og hagræna þætti, þ.m.t. samfélag, ferðamennsku, náttúruvá og öryggismál.
Opið hús og athugasemdafrestur
Allir geta gert athugasemdir við drög að tillögu að matsáætlun vegna Sprengisandslínu og skal senda þær fyrir 20. nóvember 2014 til verkefnisstjóra umhverfismatsins, Gísla Gíslasonar hjá Steinsholti sf., Suðurlandsvegi 1-3, 850 Hellu, eða á netfangið gisli@steinsholtsf.is. Merkja skal athugasemdir: Sprengisandslína, mat á umhverfisáhrifum.
Vegagerðin og Landsnet standa jafnframt sameiginlega að opnu húsi um matsáætlanirnar
- þriðjudaginn 4. nóvember í Ljósvetningabúð í Þingeyjarsveit kl. 18:00-22:00
- miðvikudaginn 5. nóvember hjá Steinsholti sf., Suðurlandsvegi 1-3, Hellu kl. 16:00-20:00
Að loknum kynningartíma verður lokið við tillögu að matsáætlun með tilliti til þeirra athugasemda sem hafa borist og hún send Skipulagsstofnun til meðferðar skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum.
Drög að tillögu að matsáætlun Sprengisandslínu
Nánari upplýsingar veita:
Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets, s. 893 4843, gudmunduri@landsnet.is
Gísli Gíslason, verkefnisstjóri umhverfismats Sprengisandslínu, s. 487 7800, gisli@steinsholtsf.is