Almennu umsagnarferli vegna kerfisáætlunar Landsnets, sem staðið hefur yfir síðan í lok maí á þessu ári, lauk formlega föstudaginn 31. ágúst.
Í umsagnarferlinu gafst hagaðilum og almenningi kostur á að koma með athugasemdir um innihald kerfisáætlunar og umhverfisskýrslu.
Alls bárust erindi frá 35 aðilum og var tekin afstaða til þeirra allra. Athugasemdirnar snéru að ýmsum atriðum sem snerta kerfisáætlun og má þar t.d. nefna forsendur og þörf, gjaldskrá og þjóðhagslega hagkvæmni, stefnu stjórnvalda og samráð. Einnig komu athugasemdir varðandi framkvæmdaáætlun, umhverfisáhrif, lykilfjárfestingar og fleira.
Umsagnir og athugasemdir sem bárust voru góðar og gagnlegar og munu nýtast vel við áframhaldandi þróun kerfisáætlunar.
Þökkum öllum sem sendu inn umsagnir
Ekki verða send svör til einstakra umsagnaraðila heldur eru viðbrögð Landsnets birt í sameiginlegu svarbréfi á www.landsnet.is . Þar má einnig finna allar umsagnir sem bárust og uppfærðar útgáfur af kerfisáætlun, umhverfisskýrslu og fylgiskjölum.
Næstu skref í ferlinu er afgreiðsla Orkustofnunar á kerfisáætlun en það ferli felur m.a. í sér annað samráðsferli sem að þessu sinni snýr eingöngu að viðskiptavinum Landsnets. Að því loknu mun Orkustofnun svo birta ákvörðun sína um kerfisáætlun eigi síðar en 15. desember á þessu ári.
Við hjá Landsneti þökkum öllum þeim sem komu að samráðsferli kerfisáætlunar að þessu sinni og hvetjum alla til að kynna sér innsendar umsagnir og viðbrögð við þeim, ásamt uppfærðri kerfisáætlun og umhverfisskýrslu sem má finna hér.