Kerfisáætlun Landsnets 2015-2024


16.07.2015

Framkvæmd

Tenging yfir hálendið með öflugum flutningslínum til norðurs og austurs er besti valkosturinn til að byggja upp meginflutningskerfi raforku á Íslandi til framtíðar með stöðugleika að leiðarljósi. Þetta er niðurstaða nýrrar kerfisáætlunar Landsnets sem nú hefur verið lögð fram til kynningar hjá Skipulagsstofnun og Landsneti ásamt umhverfisskýrslu.

Landsneti er skylt samkvæmt raforkulögum að gera áætlun um uppbyggingu flutningskerfisins. Með breytingum sem Alþingi gerði í vor var lagagrundvöllur kerfisáætlunarinnar festur í sessi og hlutverk hennar skýrt enn frekar. Er nú í raforkulögum kveðið á um að árlega skuli leggja fyrir Orkustofnun til samþykktar kerfisáætlun um uppbyggingu flutningskerfisins sem feli í sér 10 ára langtímaáætlun og framkvæmdaáætlun til næstu þriggja ára.

Tveir meginvalkostir – níu mismunandi útfærslur
Í tillögu að nýrri kerfisáætlun Landsnets 2015-2024 er unnið áfram með þá valkostagreiningu sem kynnt var í síðustu kerfisátætlun en í ljósi athugasemda sem bárust við fyrri áætlun eru þeir lagðir fram með nokkuð breyttu sniði. Í stað þriggja meginvalkosta eru nú settir fram tveir meginvalkostir sem fela annað hvort í sér tengingu yfir miðhálendið (A) eða aðgerðir við núverandi byggðalínu(B). Undir þessum tveimur aðalvalkostum eru svo lagðar til níu mismunandi útfærslur með blöndu af nýjum línum og spennuhækkun á eldri línum þar sem nýjar línur geta ýmist verið loftlínur eða jarðstrengir, allt eftir aðstæðum samkvæmt nýsamþykktri stefnu stjórnvalda.

Mat á umræddum níu valkostum, byggt á umhverfisáhrifum, stöðugleika flutningskerfisins, kerfisstyrk, flutningsaukningu, sveigjanleika orkuafhendingar, rekstraröryggi, nánd við virkjanakosti, flutningstapi, framkvæmanleika og áhrifum á gjaldskrá, leiddi í ljós að valkostur A1 - nýjar 220 kílóvolta (kV) línur á milli Blöndu og Fljótsdals, og yfir hálendið (loftlínur og jarðstrengir) - kemur best út með tilliti til fyrrnefndra þátta og lagalegra skyldna Landsnets samkvæmt niðurstöðum kerfisáætlunarinnar. Þó er bent á að valkostur B1 (endurnýjun byggðalínuhringsins með 220 kV línum sé kerfislega betri kostur en A1 en honum fylgi hins vegar meiri umhverfisáhrif og hærri framkvæmdakostnaður. Þá er langur uppbyggingartími einnig mínus á kosti B1- en tenging yfir hálendið býður upp á fljótfengnustu tenginguna milli norðurs og suðurs.

Besti valkosturinn
Valkostur A1 gerir ráð fyrir að stóru virkjanirnar fyrir norðan og austan, sem nú eru aðeins tengdar byggðalínunni, verði tengdar saman með öflugum línum. Þær yrðu síðan tengdar við stærsta framleiðslukjarnann á Suðurlandi með línu yfir hálendið þar sem mögulega væri lagður 50 km kafla í jörðu til að draga úr sjónrænum áhrifum tengingarinnar.
Með heildarstöðugleika að leiðarljósi er það því niðurstaða sérfræðinga Landsnets að leggja fram valkost A1 sem besta kostinn við uppbyggingu meginflutningskerfis raforku á Íslandi til framtíðar. Hann skili mikilli aukningu í stöðugleika ásamt töluverðri getu til að flytja afl milli landshluta með frekar stuttum línum, samanborði við byggðalínuhringinn.

Umhverfisáhrif valkosta
Í annað sinn er nú unnin umhverfisskýrsla sem fylgiskjal með kerfisáætlun Landsnets í samræmi við lög um umhverfismat áætlana. Niðurstaða matsvinnunnar er að allir níu kostirnir sem eru til skoðunar í kerfisáætluninni muni valda neikvæðum og/eða verulegum neikvæðum áhrifum á einhvern þeirra umhverfisþátta sem var til skoðunar. Áhrifin eru ólík milli valkosta en meginmunur liggur þó í því hvort flutningsleið fari um hálendið (A kostur) eða meðfram núverandi byggðalínu (B kostir). Helstu umhverfisáhrif hálendislínu felast í framkvæmdum á hálendinu og breytingum á ásýnd. Helstu umhverfisáhrif byggðalínu felast í að mun meira land fer undir flutningsmannvirki, hún fer um mörg náttúruverndarsvæði og hefur áhrif á fleiri umhverfisþætti en A kostir.

Það var niðurstaða umhverfismatsins að jarðstrengur á Sprengisandi muni draga úr umfangi neikvæðra áhrifa á landslag og ásýnd. Jafnframt munu tillögur að mótvægisaðgerðum geta dregið úr eða komið í veg fyrir neikvæð áhrif á umhverfisþætti, t.d. á landslag, ásýnd, lífríki og jarðmyndanir.


Aftur í allar fréttir