Vinnu við kerfisáætlun Landsnets 2014-2023 og umhverfisskýrslu kerfisáætlunar er nú lokið. Almennt hefur verið tekið tillit til margvíslegra ábendinga sem bárust á kynningartíma og hefur frekari upplýsingum eða rökstuðningi verið bætt við lokaútgáfu umhverfisskýrslunnar. Meginviðbrögð Landsnets við athugasemdunum munu hins vegar koma fram við mótun næstu kerfisáætlunar og umhverfismat hennar.
Alls bárust ábendingar og athugasemdir frá 23 aðilum við drög að umhverfisskýrslu kerfisáætlunar sem kynnt voru á tímabilinu 7. maí til 18. júní síðastliðinn. Svör Landsnets og viðbrögð liggja nú fyrir og eru birt í sérstöku skjali á heimasíðu fyrirtækisins. Tekur það til athugasemda allra umsagnaraðilanna en þar sem margir fjölluðu um sömu efnisatriði var farin sú leið að flokka athugasemdirnar eftir viðfangsefnum, frekar en eftir aðilum sem lögðu þær fram. Jafnframt eru birtar á vef Landsnets lokaútgáfur af kerfisáætlun 2014-2023, umhverfisskýrsla kerfisáætlunar 2014-2023 og afgreiðsla stjórnar Landsnets þann 25. september 2014, sem er lokaskrefið í ferli umhverfismats áætlana skv. lögum nr. 105/2006.Fyrsta umhverfismat kerfisáætlunar
Þetta er í fyrsta sinn sem kerfisáætlun fer í gegnum feril umhverfismats áætlana og lítur Landsnet svo á að það hafi verið kjörið tækifæri til að skapa umræðu og fá hagsmunaaðila á fyrri stigum að uppbyggingaráætlunum fyrirtækisins.
Kerfisáætlunin er endurskoðuð á hverju ári og er gert ráð fyrir því að umhverfisskýrslan verði endurskoðuð samhliða. Með umhverfisskýrslunni er kominn mikilvægur grunnur margvíslegra gagna til að fylgjast með líklegum umhverfisáhrifum áætlana. Þar eru lagðar til margvíslegar aðgerðir til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum, eða koma í veg fyrir þau, sem líta beri til á seinni stigum.
Umhverfismatið var unnið samhliða mótun kerfisáætlunar og hafði því áhrif í öllu áætlunarferlinu. Hluti af því var að líta til samanburðar umhverfisáhrifa mismunandi leiðavals og tæknikosta. Niðurstöður matsvinnu höfðu jafnframt áhrif á þær aðgerðir sem taldar eru upp í umhverfisskýrslu til að draga úr eða koma í veg fyrir neikvæð áhrif, vakta þau, eða skoða þau betur á áætlunartímabilinu.
Umhverfismatið leiddi jafnframt í ljós meginumhverfisáhrif valkosta sem skoðaðir voru og snéru að leiðavali og útfærslu tæknikosta. Litið var til þriggja valkosta um leiðaval við uppbyggingu meginflutningskerfisins. Þeir eru leið A (hálendislína og Norðurland), leið B (byggðalína) og leið C (hálendislína og vesturvængur). Auk þess voru bornir saman valkostir um spennustig og loftlínu og jarðstreng.
Við mat á leiðarvali var litið svo á að beint rask væri sambærilegt. Niðurstöður matsins eiga því við hvoru tveggja jarðstreng og loftlínu annars vegar og mismunandi spennustig hins vegar. Meginmunur á umhverfisáhrifum jarðstrengs og loftlínu snýr að sjónrænum áhrifum.
Uppbygging meginflutningskerfisins með jarðstrengjum ekki raunhæf
Í kerfisáætlun 2014-2023 kemur fram að ekki er raunhæft að byggja upp meginflutningskerfið með jarðstrengjum. Það geti hins vegar verið raunhæfur kostur að leggja jarðstrengi á ákveðnum köflum flutningskerfisins. Þannig hefur umhverfismatið lagt fram nauðsynlegar upplýsingar fyrir framtíðarákvarðanir um jarðstrengi sem snúa að því að skilgreina við hvaða aðstæður mikilvægt sé að skoða jarðstreng sem valkost. Auk þessara upplýsinga mun fljótlega liggja fyrir stefna stjórnvalda um jarðstrengi sem mun hafa áhrif á þá valkosti sem verða til skoðunar.
Í kerfisáætlun 2014-2023 er ekki tekin ákvörðun um leiðarval, þ.e. A, B eða C, eða tæknilega útfærslu við uppbyggingu flutningskerfisins. Það er því ekki valinn ákveðinn kostur að þessu sinni. Þegar ákvarðanir verða teknar um kosti við mótun næstu kerfisáætlunum mun Landsnet byggja á þeim upplýsingum sem hafa komið fram við vinnu þessarar kerfisáætlunar, bæði í umhverfismati, samráðsferli og öflun upplýsinga.
Talsverður ávinningur af umhverfismatinu
Landsnet telur að talsvert hafi áunnist með því að vinna umhverfismat fyrir kerfisáætlun og að á næstu árum verði stuðlað að því að bæta matsvinnunna og þau gögn sem hægt er að leggja til grundvallar matinu. Einn megintilgangurinn með samanburði valkosta er að finna leiðir, áætlanir og aðgerðir sem mögulega geta dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Þessari nálgun hefur verið beitt í umhverfismatinu og dregnar fram aðstæður og forsendur sem líta þarf til við ákvörðun um kosti, hvort sem það er leiðaval, spennustig eða jarðstrengur og loftlína.
Landsnet vinnur áætlanir sínar í samræmi við markmið fyrirtækisins og raforkulög nr. 65/2003. Eins og kemur fram í umhverfismati koma allir kostir til með að hafa neikvæð áhrif á umhverfið og mun Landsnet líta til umhverfisáhrifa þegar ákvörðun er tekin um uppbyggingu meginflutningskerfisins.
Matsvinnan hefur dregið fram þau umhverfissjónarmið sem mikilvægt er að líta til við ákvarðanir um kerfisáætlun og þá möguleika sem eru til staðar til að draga úr eða koma í veg fyrir neikvæð áhrif áætlunarinnar í samræmi við markmið laga um umhverfismat áætlana.
- Kerfisáætlun 2014-2023
- Kerfisáætlun 2014-2023 – Umhverfisskýrsla
- Viðbrögð við athugasemdum við drög að umhverfisskýrslu
- Greinargerð stjórnar Landsnets