Jarðstrengslengdir í meginflutningskerfinu


23.03.2017

Framkvæmd

Niðurstöður greininga á mögulegum hámarkslengdum á jarðstrengsköflum í Blöndulínu 3 eru 10 km, Hólasandslínu 3 12 km og 15 km í Kröflulínu 3.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu. Jarðstrengslengdir í meginflutningskerfinu – Mat á mögulegum jarðstrengslengdum í nýju 220 kV flutningskerfi á Norðurlandi sem birt hefur verið á www.landsnet.is

Skýrslan er afurð umfangsmikillar vinnu sem staðið hefur undanfarna mánuði. Markmiðið með henni er að varpa ljósi á mögulegt umfang jarðstrengslagna í fyrirhuguðu 220 kV flutningskerfi á Norður- og Norðausturlandi, þ.e. milli Blöndu og Fljótsdals. Þrjár línur voru skoðaðar; Blöndulína 3, Hólasandslína 3 og Kröflulína 3. Greint var hversu langa jarðstrengskafla væri mögulegt að leggja í hverja línu fyrir sig. Að auki voru skoðuð innbyrðis áhrif strenglagna í línunum á hverja aðra í samtengdu kerfi.

Hér er um hreina og klára tæknilega kerfisgreiningu að ræða þar sem ekki er fjallað um kostnað, leiðaval og jarðtæknileg atriði, svo nokkrir aðrir áhrifaþættir séu nefndir. Enn fremur hefur ekki verið horft til stefnu stjórnvalda um lagningu raflína.

Þetta er í fyrsta sinn sem unnin er greining á borð við þessa fyrir íslenska flutningskerfið. Það þurfti því að þróa aðferðafræðina, en þegar nokkuð var liðið á verkefnið fékk Landsnet gögn frá írska flutningsfyrirtækinu EirGrid, sem hafði unnið að sambærilegu verkefni.

Aðferðum þeirra svipar mjög til aðferða Landsnets og gögnin frá EirGrid hafa verið notuð til þess að styrkja greiningarvinnu Landsnets.

Verkefninu var stýrt af Landsneti. Auk sérfræðinga þaðan gegndu sérfræðingar frá verkfræðistofunum ARA Engineering og Eflu afar þýðingarmiklu hlutverki í þessari vinnu. Eru þeim færðar hinar bestu þakkir.

Allar nánari upplýsingar veitir Magni Þór Pálsson hjá Landsneti, magnip@landsnet.is

Hér er hægt að nálgast skýrsluna.

Aftur í allar fréttir