Í haust leitaði Landsnet til Háskólans í Reykjavík til þess að skoða almennt möguleika á að nota jafnstraumstengingar (DC) í flutningskerfinu, þá sem hluta af möskvuðu kerfi eða sem hluta hringtengingar. Nú hefur Háskólinn skilað frá sér minnisblaði þar sem dregnar eru saman helstu upplýsingar um jafnstraumstengingar í raforkukerfum út frá tæknilegum og rekstrarlegum þáttum.
Í minnisblaðinu er farið yfir helstu tækniþætti við breytingu úr riðstraum í jafnstraum. Fjallað er um helstu notkunarsvið slíkra tenginga og sérstaklega er hugað að notkun þeirra í flutningskerfi, sem samþættar tengingar (á ensku „embedded“). Leitað er í smiðju erlendra flutningsfyrirtækja í því skyni.
Helstu niðurstöður eru að í Evrópu hafa eingöngu verið byggðar jafnstraumstengingar, samþættar inn í flutningskerfin, þannig að orkuna sé alltaf hægt að flytja aðra leið (þ.e. hliðtengdar). Samþætt jafnstraumstenging ekki enn verið byggð sem sjálfstæð eining innan flutningskerfis þ.e.a.s. sem hlekkur í hringtengdu (raðtengdu) kerfi og ekki eru líkur á að það breytist í bráð.
Í minnisblaðinu kemur fram að jafnstraumstengingar séu að mörgu leyti áhugaverðar og geti verið skynsöm lausn ef flytja þarf mikla orku á milli fjarlægra staða eða á milli ósamfasa svæða. Út frá sjónarmiðum afhendingaröryggis til notenda rafmagns hafi slík tenging þó eingöngu verið nýtt sem viðbótartenging í möskvuðu neti, en aldrei sem sérstæð/sjálfstæð eining.
Í þessu minnisblaði er ekkert fjallað um kostnaðarhliðina, enda megintilgangurinn að skoða tæknilega og rekstrarlega þætti.
Hér er hægt að nálgast minnisblaðið.
Hér í Landsnetshlaðvarpinu er hægt að fræðast nánar um DC strengi og það sem fram kemur í minnisblaðinu.
https://soundcloud.com/user-313127807/acdc-ratengt-hlitengt-og-strengir-me-tilfinningalegt-gildi