Dagana 29. júní til 3. júlí síðastliðinn var IWAIS ráðstefnan haldin í Uppsala í Svíþjóð. IWAIS stendur fyrir “International workshops on atmospheric icing of structures”.
Ráðstefnan, sem haldin er annað hvert ár og er aðal vettvangur rannsókna á ísingu á mannvirkjum, var nú haldin í 16. sinn. Árið 1998 var hún haldin í Reykjavík. Ísing á mannvirkjum er víða mikið vandamál, einkum á norðlægum slóðum og til fjalla. Ísingarrannsóknir sem tengjast uppbyngingu vindmylla víða um heim eru að verða mjög áberandi á þessum vettvangi en engu að síður er megináherslan enn sem komið er á háspennulínur.
Ísland hefur verið virkur þáttakandi í þessu samstarfi um margra ára skeið og margar íslenskar greinar verið birtar á þessum vettvangi. Að þessu sinni voru lagðar fram fjórar greinar. Aðaláherslan nú tengist þróun spálíkana fyrir ísingu á háspennulínum, sem unnið hefur verið að á vegum Landsnets á undanförnum árum. Einstakar upplýsingar um ísingu á háspennulínum og gögn úr tilraunalínum Landsnets eru grundvöllurinn að samanburði hermunar og raunverulegra ísingargagna. Slíkur samanburður er algjör forsenda þess að til framtíðar verði spálíkönin það áreiðanleg að nota megi þau við ákvörðun álagsforsenda vegna ísingar, sem er afgerandi þáttur bæði varðandi byggingarkostnað og rekstraröryggi háspennulína.
Ráðstefnuna sóttu um 80 manns frá fjölmörgum löndum í Evrópu, Ameríku og Asíu. Fulltrúi Landsnets á ráðstefnunni var Árni Jón Elíasson, en hann situr jafnframt í stjórn IWAIS.
Erindin má sjá hér:
- A severe in-cloud icing episode in Iceland 2013-2014 - Weather pattern background
- Comparison of measured and simulated icing in 28 test spans during a severe icing episode
- Wet snow icing - Comparing simulated accretion with observational experience
- Comparison of ice accumulation on simplex and duplex conductors in parallel overhead transmission lines in Iceland.