Undirbúningur og hönnun háspennulína á norðurslóðum var eitt fjölmargra umfjöllunarefna á nýafstöðnu alþjóðaþingi Hringborðs norðurslóða sem fram fór í Hörpu um helgina en rúmlega 1.300 þátttakendur frá 34 löndum sóttu þingið.
Á dagskránni voru margvísleg málefni norðurslóða, svo sem bráðnun hafíss og hamfaraveður, öryggismál, fiskveiðar, stjórnun vistkerfa, sjóflutningar,nýting náttúruauðlinda, umhverfisvernd, ferðaþjónusta, orkumál, þróun norðurslóðaréttar, viðskiptasamstarf, aðild ríkja í öðrum heimshlutum að málefnum norðurslóða og fleira.Árni Jón Elíasson, sérfræðingur í kerfisþróun hjá Landsneti, var meðal ræðumanna á laugardag og fjallaði hann um undirbúning og hönnun háspennulína á norðurslóðum. Hann fór yfir þau atriði sem mestu máli skipta við hönnun mannvirkja í ljósi sérstöðu norðurslóða vegna viðkvæmrar náttúru og óblíðs veðurfars. Einnig gerði hann grein fyrir því hvernig staðið hefur verið að grunnrannsóknum á þessu sviði á Íslandi. Hann lagði sérstaka áherslu á mikilvægi vandaðs undirbúnings og þess að hefja rannsóknir það tímanlega að ákvarðanir um framkvæmdir byggi á raunhæfum tölfræðilegum grunni sem leiði til skynsamlegra ákvarðana. Í því sambandi lagði Árni Jón sérstaka áherslu á mikilvægi veðurfarslega spálíkana og það einstaka tækifæri sem Landsnet hefur til að nýta tiltæk gögn og upplýsingar um veðurfar og ísingu til að styðja við þróun slíkra spálíkana.