Hillir undir betri tíma í raforkumálum á Vestfjörðum


14.11.2014

Framkvæmd

Álagsprófunum á svæðiskerfið vestra vegna tengingar nýrrar varaaflsstöðvar Landsnets í Bolungarvík er lokið nema eitthvað óvænt komi fram við nánari greiningu gagna.Prófanirnar gengu mjög vel en leiddu jafnframt í ljós ýmsar úrbætur sem gera þarf.

Í heildina lofa þær hins vegar mjög góðu um að hægt verði að ná settu markmiði um að stytta verulega straumleysistíma á Vestfjörðum. Landsnet þakkar Vestfirðingum öllum fyrir þolinmæðina sem þeir hafa sýnt meðan á álagsprófununum stóð.

„Álagsprófanirnar í þessari viku hafa gengið frábærlega og viljum við þakka Vestfirðingum öllum fyrir þolinmæðina sem þeir hafa sýnt okkur,“ segir Víðir Már Atlason, verkefnisstjóri Landsnets í þessu erfiða en mjög svo gefandi verkefni. Það skýrist endanlega á mánudag hvort þörf er á frekari prófunum. „Prófanirnar hafa leitt eitt og annað í ljós sem má betrumbæta en nú hillir undir betri tíma,“ segir Víðir Már en í framhaldinu verður unnið að úrbótum til að auka enn frekar á sjálfvirkni í innsetningu álags á svæðinu.

Í prófununum í nótt og fyrrinótt var straumur tekinn af Mjólkárlínu 1 með stöðina í Mjólká í hefðbundinni vetrarkeyrslu. Snjallnetsstýringar, nýjar undirtíðnivarnir í svæðiskerfinu vestra, leystu þá strax út skerðanlegan flutningur og til að halda lífi í „eyjunni“, leysti Breiðadalslína 1 líka út og varð straumlaust á norðanverðum Vestfjörðum í kjölfarið. Í framhaldinu hélt Mjólkárstöð uppi stöðugri orkuframleiðslu fyrir suðursvæðið og er ekki vitað til þess að kaupendur forgangsorku á sunnanverðum Vestfjörðum hafi orðið fyrir straumleysi.

Strax og Breiðadalslína leysti út vegna undirtíðni í kerfinu gerðu snjallnetsstýringar kerfið á norðanverðum Vestfjörðum tilbúið fyrir spennusetningu og var spenna komin á 66 kílóvolta (kV) kerfið þar u.þ.b. hálfri mínútu eftir að Mjólkárlína 1 leysti út. Fyrsti notandinn á norðursvæðinu var svo kominn með rafmagn 10 sekúndum síðar – eða 43 sekúndum eftir að Mjólkárlína leysti út. Þá voru flestir notendur á norðursvæðinu komnir með rafmagn tæplega hálfri annarri mínútu eftir að straumur fór af Mjólkárlínu 1, þannig að þar sem straumleysi varði lengst á norðursvæðinu var það um þrjár mínútur.

Niðurstöður prófananna í nótt og fyrrinótt má skoða myndlega hér.
Aftur í allar fréttir